Auglýsing

Stefán Bogi óvæntur leynigestur í samantekt Johns Oliver: Opinn fyrir öllu varðandi módelsamninga

Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Fljótsdalshéraði, birtist óvænt í samantekt Johns Oliver um Panama-skjölin á sjónvarpsstöðinni HBO í gær. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, fær sitt pláss í samantektinni en Stefán Bogi er notaður sem dæmi um íslenskan mann í pólitískum hugleiðingum í (glæsilegri) lopapeysu.

Sjá einnig: John Oliver tók fyrir Wintris-viðtalið við Sigmund Davíð: „Eins og að horfa á bílslys sýnt hægt“

Stefán Bogi er því sannkallaður leynigestur í myndbandinu. Hann skrifar um málið á Facebook-síðu sína og segir upplifunina vægast sagt sérkennilega en skemmtilega, þar sem hann er mikill aðdáandi Oliver

„Uppruni myndarinnar er sá að ég var leiðsögumaður með hópi af fjölmiðlafólki í fyrra og ein úr hópnum var ljósmyndari sem aðallega myndar fyrir svokallaða myndabanka, hvar hægt er að kaupa sér allskonar myndir til birtingar,“ segir hann.

Ég er þar að mig minnir undir yfirskriftinni „Icelandic man“. Þarna hafa starfsmenn Oliver verið að leita að myndefni og dottið niður á þessa ágætu mynd.

Sefán segir að stjarna myndarinnar sé auðvitað peysan. „Eins og glöggir vinir mínir hafa þegar giskað á, er það Sæunn Anna Stefánsdóttir, móðir mín, sem hana prjónaði,“ segir hann.

„Hún prjónar reglulega fyrir Handprjónasambandið og ef einhver vill panta peysu frá henni sérstaklega má alveg hafa samband við mig og við komumst að einhverju samkomulagi!“

Stefán endar á að ítreka að hann sé ekki á leiðinni í forsetaframboð og gantast með að nú sé kominn tími til að gefa Gróu á Leiti frí. „Ég er svo að sjálfsögðu opinn fyrir öllu varðandi módelsamninga í framtíðinni, en efast reyndar um að Ístex eða 66°N fari nokkuð að berja niður dyrnar hjá mér á næstunni,“ segir hann laufléttur.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing