Leikarinn Stefán Karl Stefánsson hefur lokið við krabbameinsmeðferðina sem hann fór í eftir vel heppnaða aðgerð vegna krabbameins í brisi í október. Þetta fékk hann staðfest hjá lækni í morgun og segir hann frá stöðu mála á Facebook.
Stefán Karl segir að nú taki við að byggja sig upp eftir áfallið. „Þetta er búin að vera löng og ströng rúmlega sex mánaða meðferðarhrina en nú tekur við að koma sér á fætur aftur,“ skrifar hann.
Hann ætlar sér að vera kominn á fætur áður en langt um líður og segist ekki nenna að liggja mikið lengur með tærnar upp í loft. Að lokum þakkar Stefán Karl fyrir sig.
„Takk fyrir allan stuðninginn og klappið á bakið, það er ómetanlegt þegar maður gengur í gegnum svona nokkuð og þó svo að ég sé ekki alveg staðinn 100% upp þá minni ég á að ég er alveg kaffitækur og á röltinu þrátt fyrir að vera svolítið slappur. Sjáumst svo hress á röltinu í sumarblíðunni,“ skrifar Stefán Karl.