Leikarinn Stefán Karl Stefánsson jafnar sig alveg ótrúlega hratt. Þetta segir eiginkona hans, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, í færslu á Facebook-síðu sinni en hann gekkst undir velheppnaða aðgerð vegna æxlis í brisi fyrir viku síðan.
„ Illkynja meinið sem var í brishöfðinu reyndist eiga upptök sín í gallgöngunum, neðarlega í brishöfðinu og heitir því sjúkdómurinn gallgangakrabbamein eða cholangioarcarcinoma. Þeir náðu meininu öllu og skurðbrúnir voru hreinar af krabbameinsfrumum,“ segir einnig í færslunni.
Sjá einnig: Stefán Karl sagði brandara eftir velheppnaða aðgerð, gekkst undir aðgerð vegna æxlis í brisi
Steinnunn segir að Stefán muni þurfa að jafna sig í nokkrar vikur eftir aðgerðina þar sem meltingarvegurinn hafi verið endurpípaður en svo hefst fyrirbyggjandi lyfjameðferð í hálft ár. Gallgangakrabbamein er systurkrabbi briskrabbameins en sjaldgæfari og þess vegna lítt rannsakaður. Á ári hverju greinast 3-5 einstaklingar með gallgangakrabbamein á Íslandi.
Steinunn segir fjölskylduna stadda í harkalegu umferðarslysi sem sé í heldur martraðarkenndri endurspilun oft á dag.
Endurspilunum er þó aðeins að fækka og nýr veruleiki að sýjast inn í vitundina. Það er magnað hvernig líkaminn hjálpar manni í áföllum sem þessum. Hvað það að gráta er t.d góð höfuð og sálarhreinsun. Mér finnst að grátur ætti beinlínis að vera á stundarskrá. Eða hvað geispar losa um vöðvaþreytu og kvíðahnúta.
Hún segir hjónin hafa kallað til dásamlegt fagfólki fyrir börnin þeirra. Læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og starfsfólk LSH hugsi afar vel um Stefán og reyndar hana líka sem hefur verið hjá honum nánast allar stundir.
„Nú leggjum við að stað í ferðalag þar sem markmiðið er að lækna Stefán. Við fjölskyldan erum staðráðin í því að vanda okkur á þeirri vegferð og glata ekki voninni, gleðinni og ástinni. Það verður ekki fullþakkað að finna þann hlýhug sem okkur er sýndur. Það er í alvöru talað – ómetanlegt,“ segir hún að lokum.