Auglýsing

Stefán Karl sagði brandara eftir velheppnaða aðgerð, gekkst undir aðgerð vegna æxlis í brisi

Aðgerð sem Stefán Karl Stefánsson gekkst undir í gær vegna æxlis í brishöfði gekk að óskum og líður honum vel eftir atvikum. Aðgerðin er ein sú flóknasta sem gerð er hér á landi og tekur upp undir átta klukkustundir.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eiginkona Stefáns Karls, greindi frá þessu á Facebook.

Hún segir að Stefán Karl hafi reitt af sér brandara í gærkvöldi og vildi vita hvort starfsfólk Landspítalans kysi Framsóknarflokkinn.

„Þegar ég hélt að hann væri sofnaður í nótt og ætlaði að fara vaknaði hann örstutt og sagði: Steina mín, þú verður að minna mig á að hafa samband við Ora á morgun,“ skrifar Steinunn Ólína. „Nú, af hverju,“ spurði hún þá eiginmann sinn.

Ég ætla að fá þá til að framleiða með mér… Draum í dós.

Á mánudagskvöld voru haldnir styrktartónleikar fyrir Stefán Karl í Þjóðleikhúsinu. Steinunn Ólína flutti kveðju frá Stefáni Karli fyrir hans hönd.
Þar sagði meðal annars:

„Nú er stóri dagurinn minn að nálgast, einungis örfáar klukkustundir þar til ég leggst undir hnífinn. Undirbúningurinn hefur gengið eins vel og hægt er að hugsa sér á svo stuttum tíma sem raun ber vitni. Venjulega fær maður 8–10 vikur í undirbúning við uppsetningu á nýju leikriti, fær að kynnast karakternum sínum, skoða hann frá öllum hliðum og leyfa honum að lifa innra með sér fram að frumsýningu.

Þetta hlutverk er án efa það lang stærsta sem ég hef tekið að mér, og fékk rétt 13 daga til undirbúnings, martröð leikarans því fyrir hverja frumsýningu dreymir okkur illan draum um að standa óundirbúin á sviðinu, muna hvorki texta né stöður, tjaldið fer frá og röddin brestur. En erfiðleikarnir sem við stöndum frammi fyrir þurfa ekki alltaf að vera martraðarkenndir, ekki heldur einhver verkefni sem við leysum eins og reikningsdæmi þar sem við búum okkur undir það versta og vonum það besta.

Ég kýs að líta svo á að þessi raun sem ég stend frammi fyrir sé raunverulega eins og draumahlutverkið – sem alltaf er verið að inna mann eftir. Hvert er nú draumahlutverkið, Stefán?

Þetta hlutverk hefur allt til að bera: dramað, alvöruna, svarta húmorinn, blóð, svita og tár með spennu upp á líf og dauða. Það er jú draumur okkar listamanna að standast æfingaferlið og frumsýninguna og fá svo áhorfendur til að rísa úr sætum að lokum og hylla mann sem hetju augnabliksins.

En nú er komið að þessu, öðrum þætti af þremur í þessu nýja leikriti. Fyrsti þáttur fór svona, tók djúpa dýfu fyrst en gaf okkur líka von og okkur grunar hvernig verkið endar, að það endi eins og mörg góð verk heimsbókmenntanna þar sem persónur hafa þroskast og heimssýn þeirra er breytt. Nú í öðrum þætti fáum við hið raunverulega drama beint í æð og þá verða öll völd tekin af okkur, leikaranum og áhorfandanum og eins og í bestu sýningunum stöndum við á öndinni og fylgjumst með yfirnáttúrulegri atburðarás sem á endanum færir okkur nær hvert öðru.“

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing