Aðsókn í appið Top List sem Steindi gaf út í gær var svo mikil á stuttum tíma að serverinn sem hýsir appið réð ekki við álagið. Svo fór að ekki komust allir inn í leikinn til að spila hann og unnu forritarar að því í alla nótt að laga vandamálið.
Steindi og viðskiptafélagi hans Ólafur Thors unnu appið í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Kóða. „Þetta er ekki flókið. Markmiðið í The Top List er að safna Top Dollars og sá sem á flesta Top Dollars er á toppnum,“ segir Steindi um appið í samtali við Nútímann.
Á einum sólarhring náðu fjögur þúsund manns í appið og var það of mikið álag á stuttum tíma. Nú er aftur á móti búið að laga það sem þurfti að laga og gátu spilarar haldið ótrauðir áfram í dag.
Steindi er mjög sáttur með þessar frábæru viðtökur. „Það vilja auðvitað allir komast á toppinn, ég er nr 417 á listanum í augnablikinu en geri mér grein fyrir því að þetta er ekki spretthlaup heldur maraþon. Ég mun reyna að komast á toppinn, verða númer eitt í heiminum. Enginn listi skiptir jafn miklu máli og The Top List,“ segir hann.
Hægt er að ná í appið í gegnum App Store eða Google Play.