Auglýsing

Stelpan sem gerði allt vitlaust um helgina, segir Snapchat-söguna harða áminningu til foreldra

„Mér finnst þetta mjög góð leið til að sýna fram á hversu harður heimurinn er,“ segir Hekla Lydía Gísladóttir, önnur aðalleikkvennanna í sögunni sem birt var á Snapchat-aðgangi Nova um helgina, í samtali við Nútímann. Þar mátti sjá tvær unglingsstúlkur á djamminu að neyta eiturlyfja og hefur neyslan hræðilegar afleiðingar.

Sjá einnig: Sjáðu Snapchat-sögu Nova sem lagði internetið á hliðina: „Erum alls ekki að upphefja þennan lífsstíl“

Fyrstu snöppin bárust um miðnætti á föstudagskvöld en síðustu ekki fyrr en eftir hádegi á laugardag. Þau vöktu svo sannarlega mikla athygli og brugðust margir reiðir sem áttuðu sig ekki á því að sagan væri leikin. Fyrr í vikunni hafði Nova greint frá því hliðarsaga úr kvikmyndinni Eiðnum yrði sýnd á snappinu á þessum tíma.

Nova sendi frá sér tilkynningu á laugardaginn en þar sagði meðal annars að sagan hafi verið gerð til að vekja athygli á ömurlegum veruleika, tengdum fíkniefnum og ofbeldi.

Hekla Lydía segir að hún hafi bara fengið jákvæð viðbrögð frá fjölskyldu, vinum og kunningjum. Hún hafi þó orðið vör við hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum frá fólki sem hún þekkir ekki og segist skilja að foreldrar hafi orðið pirraðir.

„Ég held að þeir átti sig ekki á því að það er þrettán ára aldurstakmark á Snapchat og ef það eru börn yngri en þrettán ára á Snapchat þá eiga foreldrarnir að sjálfsögðu að fylgjast með,“ segir Hekla Lydía.

Það eru því miður of mörg þrettán ára börn komin í neyslu. Mér finnst þetta góð leið til að sýna fram á hversu harður heimurinn er.

Hún fagnar umræðunni sem skapaðist vegna sögunnar. Í fyrstu var hún aðallega á neikvæðu nótunum en varð jákvæðari þegar fleiri áttuðu sig á viðfangsefninu. „Vonandi fara foreldrar að ræða við börnin sín og útskýra hvað þetta er grimmur heimur. Þetta er hörð áminning til foreldra,“ segir Hekla Lydía.

Líkt og flestir aðrir unglingar fékk Hekla Lydía forvarnafræðslu þegar hún var í grunnskóla og segist hún viss um að snöppin um helgina hefðu ná betur til hennar, hefði hún séð þau á unglingsaldri. „Ef ég hefði verið þrettán ára og hefði séð þetta get ég lofað því að mér hefði verið brugðið. Það voru forvarnir í grunnskóla en þetta var verulega sláandi.“

Sagan setti Internetið á hliðina og veltir blaðamaður Nútímans fyrir sér hvort leikkonan hafi tekið reiði fólks nærri sér. „Nei, nei, maður bjóst alveg við þeim,“ segir hún og segist hafa búið sig undir viðbrögð af þessu tagi.

Hekla Lydía segir að því miður sýni sögurnar heiminn eins og hann er í raun og veru. „Ég þekki alveg til fólk sem er því miður alveg inni í þessu en það er sem betur fer enginn náinn mér. Maður sér þetta út um allt,“ segir hún og nefnir meðal annars skemmtistaði borgarinnar í því samhengi.

Unga leikkonan tók þátt í Stúdentaleikhúsinu á síðustu önn og situr í stjórn leikhússins í vetur. Ólafur S.K. Þorvaldz, sem leikstýrði sögunni athyglisverðu, leikstýrði einnig leikritinu sem Hekla Lydía lék í og þannig vakti hún athygli hans. Hún hefur mikinn áhuga á leiklist og vonast til að taka þátt í fleiri verkum á næstu misserum.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing