Björgunarsveitir, lögregla og Landhelgisgæslan munu taka þátt í umfangsmikilli leit að Birnu Brjánsdóttur, tvítugri konu sem hefur ekki spurst til frá aðfaranótt laugardags, þegar birtir.
Sterkur grunur leikur á að skópar sem fannst við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi sé af Birnu. Þegar hún sást síðast var hún í svörtum uppreimuðum Dr. Martens-skóm.
Hvað gerðist í gærkvöldi og í nótt?
Sjálfboðaliðar sem voru að leita að Birnu fundu skóparið við Hafnarfjarðarhöfn nálægt birgðastöð Atlantsolíu við Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Þeir tilkynntu fundinn til lögreglu.
Sá sem fann skóinn var í hópi sem hafði leitað við Kaldársel fyrr um kvöldið en skórinn fannst ekki þar. Misskilningur um að skórinn hafi fundist þar breiddist hins vegar hratt út á samfélagsmiðlum en í fréttum fjölmiðla kom einnig fram að skórinn hafi fundist þar. Lögregla kom skilaboðum til hópsins á Facebook um að halda sig fjarri umræddum svæðum.
Í kjölfarið hófst leit á svæðinu en um sextíu björgunarsveitamenn leituðu fram eftir nóttu. Hundar og drónar með hitamyndavélum voru notaðir við leitina. Leitað var á opnum svæðum og meðfram strandlengjunni. Lögreglumenn og sérsveitarmenn tóku einnig þátt í leitinni.
„Þar sem við höfum sterkan grun þá þorðum við ekki öðru en að kalla til allt sem við getum kallað til,“ sagði Ágúst Svansson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi í nótt.
Mál Birnu er enn flokkað sem mannshvarf en ekki sakamál. Enginn liggur undir grun eftir nóttina og hafa engar frekari vísbendingar fundist aðrar en skóparið.
Tæknideild lögreglu hefur fengið skóna til að sannreyna hvort þeir tilheyri Birnu.
Athygli hefur vakið að snjó var undir skónum þegar þeir fundust við höfnina. Um þrír sólarhringar eru liðnir síðan Birna hvarf og var nokkuð hlýtt á suðvesturhorni landsins á sunnudag. Öllu kaldara var í gær og snjóaði. „Ég tek alveg undir það að það er merkilegt,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjón sem stýrir rannsókn málsins, í samtali við Vísi, aðspurður um snjóinn undir skónum.
Þeir sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1000.