Auglýsing

Stjórnarformaður Blávarma kýs að svara ekki lykilspurningum: „Þeim var fyllilega ljós áhætta fjárfestingarinnar“

Soffía Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Blávarma sem er félag í eigu fjórtán af stærstu lífeyrissjóðum landsins, segir Bláa lónið verðmætara í dag en það var árið 2021 þegar félagið eyddi rúmum fjögur þúsund milljónum í hlutabréfakaup. Þetta kemur fram í svörum Soffíu til sjóðfélaga í einum af þessum fjórtán lífeyrissjóðum sem um ræðir. Soffíu hefur þó ekki fundið sig knúna til að svara Nútímanum þar sem ekkert svar hefur enn borist. Fyrirspurnin var send á Soffíu fyrir tæpum tveimur vikum og þá var fyrirspurnin einnig ítrekuð fyrir fimm dögum síðan.

Soffía tekur fram að fenginn var „óháður sérfræðingur til að vinna verðmat á félaginu í aðdraganda kaupanna sem studdi við ákvörðun um kaup.“ Hver umræddur „óháður aðili“ er liggur enn á huldu.

Líkt og Nútíminn greindi frá ákvað Blávarmi að kaupa 6,2 prósenta hlut í Bláa lóninu þrátt fyrir að gríðarleg óvissa ríkti um framtíð Svartsengis í ljósi landriss á svæðinu og eldgoss í Fagradalsfjalli. Kaupin gengu í gegn á sama tíma og eldgosið í Fagradalsfjalli stóð yfir og í raun hófst kaupferlið þegar gosið stóð sem hæst eða í júní árið 2021.

Þetta eru lífeyrissjóðirnir sem eiga Blávarma – félagið sem keypti fyrir tæpar fjögur þúsund milljónir í Bláa lóninu á einum mestu umbrotatímum í sögu landsins.

Átti fjölmiðla sem fjalla ekki um kaupin

Sá sem seldi lífeyrissjóðunum þennan 6,2% hlut er þekktur athafnamaður og fyrrum eigandi fjölmiðla á Íslandi. Hann heitir Sigurður Arngrímsson en hann keypti til að mynda allt hlutafé í fjölmiðlafyrirtækinu Hringbraut árið 2017. Þá var Sigurður einn af eigendum Fréttablaðsins og DV frá árinu 2019 og allt þar til Fréttablaðið var lagt niður og um 100 manns sagt upp í apríl 2023. Sigurður átti útgáfufyrirtækið ásamt vini sínum og viðskiptafélaga til margra ára, Helga Magnússyni. Þessi Helgi er aðaleigandi Fjölmiðlatorgs ehf. í dag en fyrirtækið á og rekur DV.is.

„Margir lífeyrissjóðir í Blávarma voru búnir að vera hluthafar í Bláa lóninu hf. í þó nokkurn tíma. Forráðamenn þeirra þekktu því vel til starfseminnar og þeim var fyllilega ljós áhætta fjárfestingarinnar“

Soffía, sem einnig er yfir eignastýringasviði lífeyrissjóðsins Birtu, kaus þó að skauta fram hjá nokkrum spurningum eða að minnsta kosti ákvað hún að svara þeim ekki alveg eins og þær voru lagðar fyrir hana. Hún var til að mynda spurð hvernig það kom til að Blávarmi keypti umræddan hlut, 6,2% í Bláa lóninu. Þeirri spurningu er til að mynda enn ósvarað í Soffía segir að um hafi verið að ræða „hefðbundið fjárfestingarferli líkt og á sér stað í öðrum sambærilegum viðskiptum lífeyrissjóða.“

Stærstu lífeyrissjóðir landsins keyptu í Bláa lóninu eftir að jarðhræringar hófust: „Þeir eyddu fjögur þúsund milljónum í miðju eldgosi“

Skautar framhjá lykilspurningum

Þetta köllum við að skauta framhjá spurningunni því aðdragandinn að umræddum kaupum er enn óljós þrátt fyrir svar hennar. Soffía tekur fram að fenginn var „óháður sérfræðingur til að vinna verðmat á félaginu í aðdraganda kaupanna sem studdi við ákvörðun um kaup.“ Hver umræddur „óháður aðili“ er liggur enn á huldu.

„Margir lífeyrissjóðir í Blávarma voru búnir að vera hluthafar í Bláa lóninu hf. í þó nokkurn tíma. Forráðamenn þeirra þekktu því vel til starfseminnar og þeim var fyllilega ljós áhætta fjárfestingarinnar,“ skrifar Soffía í svari sínu sem sjóðfélaginn kom svo áfram á Nútímann.

Það sem þykir hvað ótrúlegast við svar hennar er sú yfirlýsing að bókfært virði eignarhlutar Blávarma í Bláa lóninu í ársreikningi 2023, sem byggir á nýlegu verðmati á hlutnum að hennar sögn og var yfirfarið af endurskoðanda, sé hærra en það var við kaupin. Nútíminn getur ekki staðfest umrædda yfirlýsingu enda óljóst hvað liggur til grundvallar slíku verðmati. Það dylst þó engum sá mikli óvissutími sem hefur verið á svæðinu við Svartsengi en land heldur áfram að rísa sem þýða fleiri náttúruhamfarir. Náttúruhamfarir sem eiga svo sannarlega eftir að koma niður á rekstri Bláa lónsins með einum eða öðrum hætti – þrátt fyrir yfirlýsingar Soffíu.

Eigendur fjölmiðla losuðu sig út úr Bláa lóninu fyrir mörg þúsund milljónir

Þá segir það meira en margt annað að Soffía kaus ekki að svara þeirri einföldu spurningu hvort einhver á vegum Blávarma hafi átt fund eða fundi með vísindamönnum árið 2020 vegna landriss á svæðinu og þeirrar óvissu sem þá ríkti með framhaldið – og gerir enn. Samkvæmt heimildum Nútímans var eigendum Bláa lónsins – þar á meðal stærstu lífeyrissjóðum landsins – fyllilega ljóst að um gríðarlega áhættufjárfestingu væri að ræða og að fulltrúar eigenda Bláa lónsins hafi setið umrædda fundi, fyrst árið 2020 og svo reglulega síðan þá.

Ef þú býrð yfir gögnum eða upplýsingum um umrædd hlutabréfakaup lífeyrissjóðanna ekki þá hika við að hafa samband. Nútíminn mun halda trúnaði við alla þá sem kjósa að stíga fram með upplýsingar enda er um að ræða mál sem kemur við alla Íslendinga. Hægt er að senda upplýsingar með tölvupósti á netfangið ritstjorn@nutiminn.is eða með því að senda skilaboð í gegnum Facebook-síðuna okkar með því að smella hér!

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing