Framkvæmdastjóri Rekstrarfélags Stjórnarráðsins vill ekki staðfesta útskýringar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á atvikinu sem á síðarnefndi sagði á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins hafa verið innbrot.
Vísar hann í takmörkun upplýsinga vegna almannahagsmuna þar sem gögnin geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál.
Sjá einnig: Rekstarfélag Stjórnarráðsins fann engin ummerki um innbrot í tölvu Sigmundar Davíðs
Förum aðeins yfir málið.
Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina að brotist hefði verið inn í tölvuna hans. Hann sagði að ýmislegt hefði gengið á í baráttu hans við slitabú föllnu bankanna, enda hagsmunirnir gríðarlegir og nefndi innbrotið í því samhengi. „Ég gerði alltaf ráð fyrir að það væri fylgst með því sem ég segði í símann,“ sagði hann.
Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér – ég lét skoða það.
Og við reyndum, eins og við mögulega gátum, að forðast að hleypa þessum aðilum að okkur.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, sagði í samtali við Nútímann á mánudaginn að miklir hagsmunir hafi verið undir vegna uppgjörs slitabúa föllnu bankanna. Mikil forvitni hafi ríkt í kröfuhafahópnum um hvernig ríkið myndi snúa sér í þeim málum. „Menn áttuðu sig á því að það var um mikla hagsmuni að ræða, að menn reyndu að nálgast upplýsingar með þessum hætti,“ segir hann.
Nútíminn óskaði í kjölfarið eftir staðfestingu á innbrotinu hjá Rekstarfélagi Stjórnarráðsins. Í svarinu sem barst á mánudag sagði að félaginu hefði borist beiðni 1. apríl frá þáverandi forsetisráðherra um að skoða tölvu hans vegna rökstudds gruns um mögulegt innbrot. „Við ítarlega leit starfsmanna Rekstrarfélagsins fundust ekki ummerki um að innbrot hafi átt sér stað,“ sagði einnig í svarinu.
Sigmundur Davíð ræddi við Bylgjuna og mbl.is á mánudag. Hann sagðist hafa fengið sendan tölvupóst frá manni sem hefði ekki sent póstinn. Tölvupóstinum fylgdi viðhengi og þegar það var opnað var í því einhvers konar búnaður til að komast inn í tölvur.
Hann sagði líka að hann hefði kallað til tæknimenn frá Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins og þeir hefðu ekki getað séð hvort eða hversu miklum upplýsingum hefði verið náð úr tölvunni eða hvort tekist hefði að virkja hann.
Sigmundur Davíð sagði líka að tæknimennirnir hefðu sagt að það eina sem væri öruggt til að bregðast við þessu væri að skipta um harðan disk í tölvunni, ekki væri nóg að strauja hana bara.
Nútíminn sendi Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins aðra fyrirspurn þar sem framkvæmdastjóri var beðinn um að staðfesta útskýringar Sigmundar Davíðs, að greina frá því hvernig Rekstrarfélagið skilgreinir innbrot og hvort það að koma fyrir búnaði líkt og fyrrverandi forsætisráðherra greinir frá falli undir innbrot.
Svar barst frá framkvæmdastjóra Rekstrarfélags Stjórnarráðsins í morgun. Þar segir:
Staðarnet og tölvur Stjórnarráðsins verða reglulega fyrir margvíslegum árásum, eins og algengt er með stjórnvöld víða um heim. Áhersla er lögð á að gæta öryggi gagna og upplýsinga og unnið er samkvæmt vottuðu öryggisstjórnunarkerfi ISO27001. Það segir meðal annars um hvernig haga skuli viðbrögðum ef upp koma öryggisfrávik. Öryggistjórnunarkerfið er endurskoðað með reglubundnum hætti.
Þá á stjórnarráðið í góðu samstarfi við Ríkislögreglustjóra og aðra sem bera ábyrgð á öryggi æðstu stjórnar ríkisins.
Í því tilviki sem spurt er um reyndi vera um öryggisatvik að ræða sem rétt var að bregðast við. Það var gert skv. verklagi sem öryggisstjórnunarkerfið skilgreinir. Eftir skoðun á atvikinu var ekki metin ástæða til þess að tilkynna málið til lögreglu. Að öðru leyti er ekki unnt að fara nánar í efnisatriði þessa einstaka máls og vísast í því sambandi í 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.