Stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason eða Stjörnu-Sævar eins og hann er jafnan kallaður, hvatti fólk til þess að kaupa ekki flugelda á Twitter í dag. Sævar vakti mikla athygli fyrir um ári síðan þegar hann lagði til að flugeldar yrðu bannaðir. Hann hvatti þá fólk til þess að styrkja björgunarsveitirnar með fjárframlagi rétt eins og nú.
Sjá einnig: Stjörnu-Sævar styrkir björgunarsveitirnar um 50 þúsund en leggur til að flugeldar verði bannaðir
Sævar deilir frétt RÚV þar sem rætt er við Jón Inga Sigvaldason, markaðs- og sölustjóra Landsbjargar. Jón segir að björgunarsveitirnar stefni á óbreytta flugeldasölu um áramót þrátt fyrir umræður um loftmengun. Landsbjörg sé nú í samvinnu við sérfræðinga að komast að því hvort flugeldum sé einum að kenna um mikla mengun um síðustu áramót.
Metsala var á flugeldum síðustu áramótum og heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sagði mengun hafa farið fram úr svörtustu spám.
Sævar sem styrkti björgunarsveitirnar um 50 þúsund krónur á síðasta ári sagði í samtali þá í samtali við Vísi að hann væri bjartsýnn á að flugeldar verði eitt af því sem að verði bannað í framtíðinni.
„Þetta er eitt af því sem að fólk mun horfa á með miklum undrunaraugum í framtíðinni, að þetta hafi verið leyft yfir höfuð. Ég held að við munum horfa á þetta með sömu augum og reykingar í framtíðinni.“
Mengun, hávaði, óþægindi fyrir fólk og dýr, sprengingar í tíma og ótíma. Rétt eins og í fyrra hvet ég alla til að kaupa ekki flugelda en styrkja björgunarsveitirnar þess í stað með fjárframlagi. https://t.co/UqRz8VXwe8
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) November 26, 2018