Þorsteinn Baldvinsson, einnig þekktur sem Stony, er kominn með hlutverk í kvikmyndinni Life in a Year. Þar mun hann fara með hlutverk Kien, besta vinar aðalpersónunnar Daryn.Terrence Howard, Cara Delevinge og Jaden Smith fara með aðalhlutverk í myndinni. Fréttavefurinn Miðjan greinir frá.
Á vefnum Deadline segir að Kien sé mjög upptekin af stelpum, sítalandi og traustur vinur.
Það er ekki langt síðan Stony skaust upp á stjörnuhimininn og hann hefur svo sannarlega ekki setið auðum höndum síðan. Lesendur muna vonandi eftir myndbandi Nútímans við lagið Gerðiþaðekki. Það sló rækilega gegn og setti internetið í rauninni á hliðina.
Sjá einnig: Allt sem þú vissir ekki um manninn á bak við Gerðiþaðekki
Þar smíðaði Stony popplag úr frammistöðu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins og flugvarllarvina, í Kastljósinu þegar hún viðurkenndi að það hefðu verið mistök af hennar hálfu að skipa Gústaf Níelsson sem varamann í mannréttindaráð borgarinnar.
Þessa dagana fer Stony með eitt aðalhlutverkanna í þáttunum Hunter Street sem voru nýlega frumsýndir á barnastöðinni Nickeloden.
Stony vakti heimsathygli í auglýsingaherferð Pepsi fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta. Þar var hann í aðalhlutverki á móti fótboltahetjum á borð við Lionel Messi, Robin van Persie, David Luiz, Sergio Aguero og að sjálfsögðu okkar eigin Gylfa Sigurðssyni.
Stony vakti fyrst athygli á Youtube rás sinni, Stony’s World. Myndband þar sem hann endurleikur lag Macklemore og Ryan Lewis, Can´t Hold Us, með skemmtilegum tilþrifum hefur vakið gríðarlega athygli.
Myndbandið hafnaði í fanginu á sjónvarpsmanninum Ryan Seacrest sem valdi það í keppni á netinu þar sem það fékk mjög góðar viðtökur. Í kjölfarið lenti það á borðinu hjá forsvarsmönnum Pepsi í Bandaríkjunum sem líkaði myndbandið það vel að þeir nýttu hugmyndina og réðu Stony til að leika aðalhlutverk í einni stærstu auglýsingaherferð síðasta árs.
Hann sendi svo frá sér smellinn Feel Good síðasta sumar og var tilnefndur til Hlustendaverðlaunana 2015 sem nýliði ársins og fyrir myndband ársins.
Þorsteinn stal svo senunni á ráðstefnunni Sko í Hörpu í október árið 2014 þegar hann sýndi nýtt myndband þar sem hann rekur hvernig netið skaut honum upp á stjörnuhimin á örskömmum tíma og kom honum í samband við alþjóðleg fyrirtæki og stórstjörnur.