Rithöfundurinn Halldór Armand veltir því fyrir sér í pistli á RÚV hvort að ekki megi setja spurningarmerki við það að helsta leiðin til þess að láta gott af sér leiða í íslenskum veruleika árið 2018 fari fram í bæði nafni og þágu banka.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram um þar síðustu helgi. Um 18 þúsund manns tóku þátt í hlaupinu og 155 milljónir króna söfnuðust til styrktar góðum málefnum. Almenn ánægja var með hlaupið, frægir einstaklingar á borð við Ólaf Darra og Guðna Th. tóku þátt og í bakþönkum Fréttablaðsins var hlaupið kallað stærsta guðsþjónusta ársins.
Halldór segir þó eitthvað dapurlegt og grásbrotlegt við þá staðreynd að stórfyrirtæki og fjármálastofnanir séu að sölsa undir sig náungakærleik.
„Sá sem hlær alla leið í bankann, í þessu tilviki, er bankinn sjálfur, í stærstu guðsþjónustu ársins er það Mammonsmusterið sem á síðasta orðið. Hinn eini sanni sigurvegari Íslandsbankamaraþonsins er ekki sá eða sú sem kom fyrstur í mark, ekki góðgerðasamtökin sem fengu 100 milljónir, heldur Íslandsbanki sjálfur, sem hlær og hlær og skellihlær á leiðinni inn í sjálfan sig þegar þúsundir manna borga honum fyrir að láta gott af sér leiða í hans nafni,” skrifar Halldór.
Þúsundir selfímynda af hlaupurum í einkennislitum bankans, merktar bankanum í bak og fyrir, breiðast yfir internetið, þúsundir ókeypis auglýsinga, og hlær og hlær og skellihlær þegar fjölmiðlar sýna beint frá því þegar rauð og hvít breiðfylking leggur brokkandi af stað frá Lækjargötu og dreifist um borgina, og hlær og hlær og skellihlær þegar prestar þjóðkirkjunnar tengja markaðsstarf hans opinberlega við hugtök eins og „réttlæti”, svo ekki sé minnst á þjónustu við almáttugan Guð
Hann telur ástæðu til þess að sýna varúð þegar fjármálastofnanir setji upp grímu manngæskunnar og bjóði fólki upp á að láta gott af sér leiða í þeirra nafni.
„En kannski eru þetta óþarfaáhyggjur. Kannski leysir markaðurinn þetta líka með einhverri huggulegri neysluvöru. Já, ég hlakka til þess dags þegar ég get þrammað um göturnar með and-nasíska rækjusamloku í hönd, búinn að móta hárið mitt í fallegan sveip með hárgeli sem berst gegn misskiptingu auðs. Já, þá geta öfgaöflin svo sannarlega farið að skjálfa á beinunum!” skrifar Halldór en pistil hans er hægt að hlusta á, eða lesa, í heild sinni með því að smella hér.
Guðmundur Björn, kollegi Halldórs, tekur undir með honum og segir á Twitter að þegar banki sé farinn að græða á góðmennsku annarra þá hafi kapítalisminn endanlega knésett kristindóminn.
Frábær. Ef að banki græðir ? á góðmennsku annarra, þá hefur kapítalisminn endanlega knésett kristindóminn. Kærleikurinn sem Kristur boðar er án skilyrða, ekki háður skráningagjaldi. En money prevails – vel gert Íslandsbanki ??
Hlustið: https://t.co/0uGXGUVTXN
— Guðmundur Björn (@gudmundurbjorn) August 30, 2018