Á dögunum sendi viðskiptavinur Sjóvá útibúi fyrirtækisins á Akureyri skemmtilega fyrirspurn sem innihélt þá afar sérstöku kvöð að fá svar í bundnu máli.
„Sumum viðskiptavina okkar finnst best að hringja og ræða sín mál við ráðgjafa í síma. Aðrir vilja koma í höfuðstöðvarnar eða útibú og ræða sínar tryggingar beint. Með tækniframförum fjölgar síðan þeim sem vilja fá tilboð í tölvupósti og skrifa undir með rafrænum skilríkjum. Og hjá fyrirtæki eins og Sjóvá er að sjálfsögðu orðið við þeirri beiðni.“
Þjónustufulltrúi Sjóvá svaraði viðskiptavininum og úr urðu stórskemmtileg samskipti sem má sjá hér að neðan. Nafni viðskiptavinsins hefur þó verið breytt.
Svona hljóðaði fyrsti póstur frá viðskiptavini:
Kærar kveðjur sendi ég til Sjóvá
Sem tryggir mig af gömlum vana ennþá
En spurningin sem einhver þarf að svara
Er Biggi Shark* að njóta bestu kjara?
Svar óskast í bundnu máli.
Freydís svarar:
Sæll og blessaður Biggi Shark
þetta er nú skemmtilegt hark
ný iðgjöld reiknast eftir miðjan Jan
ég skoða þetta þá og vel ég man
Í tölvupósti frá mér færðu
uppfærð gjöld og vonandi nærðu
helgarinnar vel að njóta
og jólunum upp skjóta
Viðskiptavinurinn svarar:
Sæl Freydís.
Þakka fyrir póst og ljóð
Leika við mig fljóðin rjóð
Í hjarta mínu kviknar glóð
Þótt kominn sé á ellislóð
Hugsaðu þér ef öll samskipti við fyrirtæki og opinbera aðila yrðu að vera í bundnu máli.
Þá væri nú aldeilis gaman að lifa.
Bestu kveðjur.
Freydís svarar:
Sæll Biggi og góðan daginn
Vonandi gengur þér allt í haginn
Nýtt yfirlit ég sendi nú þér
Kjörin yfirfarin vel af mér
Þú ert að njóta okkar bestu kjara
Því við viljum ekki sjá þig fara
Tjónlaus ertu og áfram óbreytt
Í mars færðu þá endurgreitt
Ýmiss fríðindi fylgja Stofni
Þó að sú þekking með tímanum dofni
Takk fyrir áskorun í bundnu máli
Ég hafði gaman af þessu rjáli
Viðskiptavinur svarar:
Kæra Freydís.
Mikið vil ég þakka þér
Fyrir það að sinna mér
Þú hefur bæði kjark og þor
Til þess að yrkja vísnaspor
Heyrumst aftur eftir ár
Ef ég verð ekki óvarkár
Ég skal reyna að standa mig
Og þú ert alveg dásamleg
Kærar kveðjur,
Biggi Shark