Nútíminn fékk rétt í þessu sent myndskeið frá Grundartanga sem, að því er virðist, sýnir kerskála frá kísilveri Elkem spúa sjóðandi heitum kísil yfir svæðið. Vegfarandi sem tók upp myndskeiðið segist keyra þessa leið daglega en hann lýsir þessu svona:
„Það er eins og það gjósi bara upp úr kísilverinu. Þetta hef ég aldrei séð áður. Það er eins og kerskálinn hafi bara sprungið í loft upp.“
Nútíminn hefur reynt að ná í forsvarsmenn kísilversins en án árangurs. Þá segir varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu að þeir hafi ekki fengið tilkynningu um atvikið. Slökkviliðið á Akranesi er um þessar mundir að kanna hvað hafi gerst þarna.
Við munum uppfæra fréttina um leið og frekari upplýsingar berast.
Uppfært 10:17 – Slökkvilið á Akranesi hefur ekki fengið tilkynningu um óhapp við kísilverið þrátt fyrir að vera hluti af viðbragðsáætlun verksmiðjunnar. Nútíminn sendi myndskeiðið á slökkviliðið og þar fengust þau svör, miðað við myndskeiðið, að þetta væri eitthvað sem þeir hefðu ekki séð áður – ekki af þessari stærð að minnsta kosti.
Uppfært 10:40 – Forstjóri Elkem á Íslandi, Álfheiður Ágústsdóttir, segir að síur í skorsteinum verksmiðjunnar hafi slegið út. Þegar það gerist að þá getur litið út eins og það gjósi upp úr þeim. Samkvæmt heimildum Nútímans fer ógrynni af krabbameinsvaldandi efnum út í andrúmsloftið þegar þetta gerist. Um er að ræða reykhreinsivirki sem virðist, í þessu tilfelli, ekki virka sem skyldi. Þetta var tíður viðburður hjá United Silicon í Helguvík en það varð til þess að mikið af eiturefnareyk lagði yfir nærliggjandi byggð. Álfheiður segir að viðeigandi ráðstafanir hafi strax verið gerðar og hitinn á ofnunum keyrður niður.