Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, bauð manni sem baðaði sig reglulega nakinn í vaðlauginni við Gróttu sundkort í von um að hann myndi hætta að særa blygðunarkennd bæjarbúa. Þetta kemur fram á mbl.is.
Maður hefur vanið komu sína í Bollastein, listaverkið og vaðlaugina við Gróttu á Seltjarnarnesi. Í umræðu um ferðamenn á svæðinu í Facebook-hópi íbúa Seltjarnarness segir Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar, að vaðlaugin sé fyrst og fremst hugsuð sem laug til að dýfa tánum ofan í, sitja og njóta útsýnisins.
Það er erfitt að banna fólki að stinga sér ofan í listaverkið.vEn það varðar við lög að vera nakinn á almannafæri og það særir blygðunarkennd margra.
Einhverjir einstaklingar hafa þó verið staðnir að því að baða sig í pottinum eftir sjósund líkt og strípalingurinn sem vanið hafði komu sína í pottinn daglega. Hann hafnaði boði bæjarstjórans um sundkort í sundlaugina á Seltjarnarnesi á þeim forsendum að hann átti kort í sundlaugina og hafði því lítil not fyrir annað.