Tveir eldri menn læddust út af elliheimili sínu á föstudaginn til þess að fara á þungarokkhátíðina Wacken Open Air í Þýskalandi.
Hátíðin, sem fer fram í Wacken í norður Þýskalandi, stóð yfir um helgina en hún er ein af stærstu þungarokkhátíðum í heiminum
Samkvæmt þýska miðlinum Deutsche Welle hafði starfsfólk elliheimilisins samband við lögreglu þegar ljóst var að mennirnir tveir voru týndir. Þeir fundust á hátíðinni klukkan þrjú á föstudaginn og lögreglan segir þá hafa verið í annarlegu ástandi.
Þeir höfðu lítinn áhuga á því að yfirgefa hátíðina en var að lokum fylgt heim af lögreglu. Talsmaður lögreglunnar sagði að það hefði verið augljóst að mennirnir voru mjög hrifnir af tónlistinni á hátíðinni.