Maður sem var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn einum pitli og fjórum börnum var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Maðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Barnavernd Reykjavíkur. Atvikin sem hann var ákærður fyrir tengdust þó ekki þeim störfum sem hann gegndi hjá Barnavernd Reykjavíkur. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.
Sjá einnig: Starfsmaður barnaverndar tvisvar kærður fyrir kynferðisbrot en starfaði áfram með börnum
Nútíminn hefur áður greint frá því að maðurinn hafi verið kærður í ágúst á síðasta ári fyrir að hafa á árunum 2004 til 2010 brotið gróflega gegn ungum pilti. Maðurinn var þá stuðningsfulltrúi piltsins og tveggja systkina hans og síðan hafa systkinin einnig borið vitni um kynferðisofbeldi mannsins í sinn garð. Maðurinn var handtekinn og settur í gæsluvarðhald seinni hluta janúarmánaðar á þessu ári. Þrátt fyrir það vissu barnaverndaryfirvöld ekki af kæru á hendur manninum fyrr en hann var handtekinn.
Hann var kærður fyrir samskonar brot fyrir fimm árum en málið var fyrnt og látið niður falla. Barnavernd Reykjavíkur hafði gert viðvart um manninn mörgum árum fyrr en þrátt fyrir það starfaði hann áfram með börnum.
Sjá einnig: Segist vita um tíu tilfelli þar sem stuðningsfulltrúinn á að hafa brotið kynferðislega á börnum
Ákæran var í þrettán liðum og voru brotaþolarnir fimm. Maðurinn var sýknaður af öllum ákæruliðum. Sakakostnaður var 25 milljónir króna og verður hann allur greiddur úr ríkissjóði. Dómur Héraðsdóms Reykjaness hefur ekki verið birtur en fjarlægja þarf persónugreinanlegar upplýsingar úr dómnum áður en það má birta hann.
Sævar Þór Jónsson, réttargæslumaður eins þeirra sem kærði manninn fyrir kynferðisbrot segir í samtali við RÚV að dómurinn komi á óvart og segir vitnisburð umbjóðanda síns hafa verið metinn trúverðugan. „Þetta vekur upp margar spurningar.“