Sunna Rannveig Davíðsdóttir er orðin atvinnumaður í MMA, blönduðum bardagalistum, fyrst íslenskra kvenna. Sunna hefur gengið til liðs við Invicta Fighting Championships sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum og gert langtímasamning.
Sjá einnig: Kristín Péturs fór í einkaþjálfun hjá hörðustu píu landsins, sjáðu myndbandið
Í tilkynningu kemur fram að konur keppi eingöngu hjá þessu bardagasambandi en sterk tengsl eru á milli Invicta og UFC. Sunna er meðlimur í keppnisliði Mjölnis og hefur barist sex sinnum sem áhugamaður í MMA og sigrað 5 af þeim viðureignum.
Sunna er jafnframt þrefaldur Íslandsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og er núverandi handhafi gullverðlauna frá Evrópumeistaramótinu í sömu íþrótt í sínum flokki. Jafnframt er hún ríkjandi Evrópumeistari áhugamanna í MMA í sínum þyngdarflokki.
„Frá fyrstu æfingu þá vissi ég að þetta var það sem mig langaði að leggja áherslu á og ég fann að ég fylltist metnaði og eldmóð,“ segir Sunna sem hóf að æfa bardagaíþróttir fyrir sex árum síðan. „Ég hafði fundið eitthvað sem vísaði veginn til betra lífs og hamingju.“
Gunnar Nelson er æfingafélagi og vinur Sunnu. Hann hlakkar til að styðja hana úr horninu eða salnum.
Við erum búin að æfa svo oft saman. Sunna er einstök manneskja og það eru forréttindi að hafa fengið að fylgjast með því hversu mikið hún hefur þróast og bætt sig sem bardagamaður.
Á næstu vikum verður tilkynnt um fyrsta bardaga Sunnu undir merkjum Invicta.
„Ég er svo til í þetta. Ég hef aldrei verið í betra formi og ég treysti mér til að mæta hverri sem er, hvenær sem er. Þetta er það sem ég er búin að vera að stefna að undangengin ár og nú er loksins að koma að því,“ segir Sunna.
Hér er hægt að fylgjast með Sunnu á Facebook.