Sunna Davíðsdóttir vann Ashley Greenway í bardaga á vegum Invicta-bardagasambandsins í Kansas City í Bandaríkjunum rétt í þessu. Þetta var fyrsti atvinnubardagi Sunnu en hún er fyrsta íslenska konan sem gerist atvinnumaður í MMA.
Sjá einnig: Sjáðu brot úr heimildarmynd um Sunnu: „Ég elska að berjast — það gefur mér tilgang“
Sigurinn var öruggur hjá Sunnu sem var með yfirhöndina allan tímann. Ákvörðun dómarana var einróma og Sunna fagnaði vel með íslenska fánann á öxlunum.
Sunna gekk til liðs við Invicta Fighting Championships, sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum, í apríl síðastliðnum. Hún varð þar með atvinnumaður í MMA, blönduðum bardagalistum, fyrst íslenskra kvenna.