Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætlar að að leggja frumvarp til laga sem heimilar þungunarrof til loka lok 22. viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Í frumvarpinu verður, líkt og í gildandi lögum, lögð áhersla á að þegar þungunarrofs er óskað skuli það ætíð framkvæmt eins fljótt og hægt er. Í núverandi lögum er fóstureyðing heimil til loka 16. viku meðgöngu. Auk þessa er kveðið á um heimild til fóstureyðingar eftir 16 vikur, „séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs“.
Í frumvarpi heilbrigðisráðherra er réttur kvenna til sjálfsforræðis og ákvarðanatöku byggðri á óhlutdrægri fræðslu og ráðgjöf hafður að leiðarljósi og sömuleiðis virðing fyrir mannréttindum og mannlegri reisn.
Í þeim drögum að frumvarpi sem nýlega voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda var gert ráð fyrir að heimilt yrði að framkvæma þungunarrof að ósk konu, óháð ástæðum að baki þeim vilja, fram að 18. viku. Einnig var í drögunum gert ráð fyrir takmörkuðum heimildum fyrir þungunarrofi eftir lok 18. viku ef lífi konu væri stefnt í hættu með áframhaldandi þungun eða ef fóstur teldist ekki lífvænlegt til frambúðar.
Nánar má lesa um frumvarið hér.