Sex karlar og fimm konur skipa nýja ríkisstjórn , Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks sem tekur formlega við í dag. Ahygli vekur að einn ráðherra er utan þings, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, verður ráðherra umhverfis-og auðlindamála.
Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm ráðherrastóla. Bjarni Benediktsson verður fjármála-og efnahagsráðherra, Kristján Þór Júlíusson verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigríður Andersen verður áfram í dómsmálaráðuneytinu, Guðlaugur Þór Þórðarson sér um utanríkismálin og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður áfram ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Í ráðherraliði Vinstri grænna verða ásamt Guðmundi þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Fyrir Framsóknarflokkinn mun Sigurður Ingi Jóhannsson stýra sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytinu, Ásmundur Einar Daðason verður félagsmálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir verður mennta-og menningarmálaráðherra.