Auglýsing

Svört skýrsla um Fangelsismálastofnun

Ríkisendurskoðun birti í dag niðurstöður stjórnsýsluúttektar á Fangelsismálastofnun og má segja að skýrslan sé frekar svört. Úttektin var gerð í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar á innheimtu dómsekta sem kom út í byrjun árs en þá komu fram vísbendingar um að Fangelsismálastofnun væri illa í stakk búin til að rækja hlutverk sitt samkvæmt lögum um fullnustu refsinga. Átti það einkum við um getu stofnunarinnar til að boða dómþola til afplánunar og ljóst þótti að Fangelsismálastofnun gæti ekki rekið fangelsi landsins á fullum afköstum.

„…ástand „flestra bygginga Fangelsisins Litla-Hrauni afar bágborðið.“

Í skýrslunni kemur fram að ekki einn eða tvær þættir í starfsemi stofnunarinnar valda því að íslenskt fullnustukerfi er ekki rekið með þeirri skilvirkni eða árangri sem lög gera ráð fyrir heldur margvíslegir. Þar er deilt á dómsmálaráðuneytið en Ríkisendurskoðun segir ráðuneytið ekki hafa mótað heildarstefnu á sviði fullnustumála. Það birtist meðal annars í undirmönnun og uppsafnaðri viðhaldsþörf fangelsa. Varðandi viðhaldsþörfina þá segir Ríkisendurskoðun að ástand „flestra bygginga Fangelsisins Litla-Hrauni afar bágborðið.“

Dómar fyrnast vegna vandræða

Þá segir einnig að vegna takmarkaðs framboðs á afplánunarrýmum hafi gengið erfiðlega að stytta boðunarlista og því væri nokkuð um að dómar fyrnist af þeim sökum.

„Þrátt fyrir opnun nýs fangelsis á Hólmsheiði árið 2016 hefur raunfjölgun afplánunarrýma verið lítil og ekki haldist í hendur við fjölgun og almenna þyngingu fangelsisdóma. Sterkar vísbendingar eru því um að álag á fangelsiskerfi landsins muni aukast á komandi árum. Þá bíða stjórnenda miklar áskoranir í mannauðsmálum Fangelsismálastofnunar. Lakur árangur í starfsánægjukönnunum ásamt brotakenndri menntun og starfsþjálfun fangavarða hefur valdið því að um uppsafnaðan vanda er að ræða í þessu sambandi,“ segir meðal annars í niðurstöðum skýrslunnar.

Engar upplýsingar um fjölda árása

Þá er einnig fjallað um öryggismál í fangelsum landsins en staða þeirra er afar misjöfn að mati Ríkisendurskoðunar. Eins og Nútíminn hefur greint frá hafa fjölmargar alvarlegar líkamsárásir átt sér stað á göngum Litla-Hrauns til að mynda og má það rekja til fámenni fangavarða, skipulagi fangelsins og skort á almennum öryggisbúnaði.

„…ekki eru til staðar nákvæmar upplýsingar um tilvik þegar öryggi fangavarða er ógnað eða þegar önnur agabrot koma upp í fangelsum landsins.“

„Að mati Fangelsismálastofnunar er aðkallandi að bæta myndavélabúnað og þá eru tölvur, hugbúnaður og annar tæknibúnaður annað hvort kominn til ára sinna eða er ábótavant samkvæmt úttektum sem gerðar hafa verið á þessum þáttum starfseminnar,“ segir í skýrslunni.

Það sem vekur einnig athygli er að í skýrslunni kemur fram að ekki eru til staðar nákvæmar upplýsingar um tilvik þegar öryggi fangavarða er ógnað eða þegar önnur agabrot koma upp í fangelsum landsins.

„Það stafar af því að skjölun og flokkun skýrslna er áfátt og því erfitt að greina gögnin frekar með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Að mati Ríkisendurskoðunar takmarkar þetta yfirsýn Fangelsis-málastofnunar og dregur úr virkni úrbóta sem ólík öryggisfrávik kalla á. Fangelsis-málastofnun er hvött til að bæta fyrirkomulag skráninga og flokkunar atvika svo að hægt sé að bregðast við öryggisfrávikum með skilvirkari og árangursríkari hætti.“

Kvenfangar mæta afgangi í kerfinu

Þá skoðaði Ríkisendurskoðun einnig stöðu kvenfanga sem er sögð ábótavant.

„Ríkisendurskoðun telur með öllu óverjandi að aðstöðumunur á grundvelli kyns sé jafn mikill og raun ber vitni“

„Yfir 90% fanga eru karlkyns og hefur fullnustukerfið að miklu leyti mótast út frá þeirri staðreynd. Í dag eru vistunarúrræði fyrir konur í tveimur fangelsum, Fangelsinu Hólmsheiði og Fangelsinu Sogni. Þar sem Fangelsið Hólmsheiði er hannað sem öryggisfangelsi og skammtímaúrræði er það vafasöm ráðstöfun að konur séu vistaðar þar til lengri tíma. Ríkisendurskoðun telur með öllu óverjandi að aðstöðumunur á grundvelli kyns sé jafn mikill og raun ber vitni og að ekkert sérstakt vistunarúrræði sé til staðar fyrir kvenfanga. Stofnunin beinir því til dómsmálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar að vinna að sérstöku úrræði fyrir konur og tryggja öryggi, aðbúnað og endurhæfingarúrræði þeirra sem afplána nú í Fangelsinu Sogni og Fangelsinu Hólmsheiði.“

Ríkisendurskoðun kemst einnig að þeirri niðurstöðu, sem verður að teljast áfellisdómur yfir dómsmálaráðuneytinu, að aðgerðir ráðuneytisins í kjölfar ábendingar umboðsmanns Alþingis um stöðu kvenna í fangelsum, hafi ekki komið að fullu til móts við þær ábendingar.

„Í tilkynningu dómsmálaráðuneytis í september 2023 kom m.a. fram að með stækkun Fang-elsisins Sogni væri ráðuneytið að bregðast við ábendingum umboðsmanns Alþingis um stöðu kvenna í fangelsum. Ríkisendurskoðun vekur athygli á að almennt er lagt upp með fullkominn aðskilnað kynja og því telur embættið umræddar fyrirætlanir ráðuneytisins ekki koma að fullu til móts við ábendingar umboðsmanns.“

Brotalöm í endurhæfingu og heilbrigðisþjónustu

„Endurhæfingarmarkmið í fullnustukerfinu miða að því að fækka endurkomum í fangelsi. Mikilvægur hluti endurhæfingar er að viðhalda almennri virkni fanga meðan á afplánun stendur. Slík virkni byggir fyrst og fremst á möguleikum til náms og vinnu. Þótt boðið sé upp á hvoru tveggja í fangelsum landsins gætir nokkurs aðstöðumunar milli fangelsa. Í Fangelsinu Kvíabryggju og Fangelsinu Hólmsheiði er t.d. einungis boðið upp á fjarnám sem hentar föngum misvel vegna mismikillar þarfar á stuðningi í námi,“ segir Ríkisendurskoðun sem segir framboð starfa misjafnt og nefnir til að mynda almennt aðstöðuleysi í Fangelsinu Hólmsheiði.

„Sér í lagi hefur þess orðið vart við veitingu þjónustu á bráðageðdeild Landspítala. Helstu ástæður eru skortur á heilbrigðisstarfsfólki og ónóg samskipti milli aðila, en aðstöðuleysi í Fangelsinu Litla-Hrauni er sömuleiðis takmarkandi þáttur.“

„Eins og fram hefur komið eru þar fangar í langtímaafplánun, sér í lagi konur, en mæta þarf betur þörfum þeirra í þessu tilliti. Loks hafa komið fram sjónarmið um að skilgreina launuð störf í fangelsum með sérstökum hætti svo samkeppnissjónarmið hamli ekki framboði starfa enda markmið þeirra samfélagsleg. Ríkisendurskoðun telur ástæðu fyrir stjórnvöld að kanna kosti og galla þess.“

Að lokum segir Ríkisendurskoðun ýmsa vankta á veitingu heilbrigðisþjónustu fyrir fanga þó svo að lög kveði skýrt á um slíkt. Fangelsismálastofnun hafi reynt torvelt að sinna he nni með skilvirkum og árangursríkum hætti.

„Sér í lagi hefur þess orðið vart við veitingu þjónustu á bráðageðdeild Landspítala. Helstu ástæður eru skortur á heilbrigðisstarfsfólki og ónóg samskipti milli aðila, en aðstöðuleysi í Fangelsinu Litla-Hrauni er sömuleiðis takmarkandi þáttur. Þrátt fyrir stofnun geðheilbrigðisteymis fanga árið 2019 háir mannekla starfseminni. Þá þarf að skýra betur verkaskiptingu milli þess teymis og meðferðarsviðs Fangelsismálastofnunar,“ segir í skýrslunni en bætt er við að unnið sé að úrbótum á þessu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing