Auglýsing

Sýna fram á að British Airways sé ekki að fara að fljúga frá „miðborg“ Lundúna til Keflavíkurflugvallar

Fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að breska flugfélagið British Airways ætli í haust að hefja beint flug til Keflavíkurflugvallar frá London City-flugvellinum. Í frétt mbl.is um málið er flugvöllurinn sagður vera í „miðborg“ Lundúna.

Í kjölfarið á fréttum um hugmyndir British Airways kom fram í fréttum Stöðvar 2 að Isavia vilji að opnað verði á meira millilandaflug frá Reykjavíkurflugvelli, bæði til að létta á Keflavíkurflugvelli og til að stytta ferðatíma flugfarþega.

Björn Teitsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl og Andri Gunnar Lyngberg Andrésson arkitekt hafna því að London City-flugvöllurinn sé í miðborg Lundúna og hafa birt skýringarmyndir sem undirstrika það. Þá setja þeir fjarlægðina í samhengi við fjarlægð Reykjavíkurflugvallar frá miðborg Reykjavíkur. Sjáðu myndirnar hér fyrir neðan.

Á fyrri myndinni má sjá fjarlægð London City Airport frá miðpunkti Lundúna, sé hann miðaður við Westminster. „Sú fjarlægð telur 12 kílómetra. Þar má einnig sjá Reykjavíkurflugvöll á myndinni, væri hann jafn langt frá Westminster og hann er frá miðpunkti Reykjavíkur, sem er miðaður við gangstéttarhelluna og listaverkið „Miðja Reykjavíkur“ eftir Kristinn E. Hrafnsson, sem má finna á mörkum Aðalstrætis og Vesturgötu. Það eru 1,3 kílómetrar,“ segir Björn á Facebook-síðu sinni.

Á seinni myndinni má sjá hvar London City Airport væri, ef hann væri í sömu fjarlægð frá miðpunktinum, nema í Reykjavík, í 12 kílómetra fjarlægð. „Þá væri hann rétt norðaustan við Úlfarsfell,“ segir Björn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing