Auglýsing

Systir Diljár var á leiðinni á Vog þegar hún lést

„Þetta munaði sem sagt einni helgi og hún átti að fara inn á Vog á mánudegi. Mömmu grunaði að það væri maður á hæðinni, annar sjúklingur, sem væri að útvega henni efni. Hún var búin að láta vita af því upp á spítala en það var ekki gripið til neinna ráðstafana varðandi það og svo fæ ég bara símtalið um miðja nótt um að hún væri komin í hjartastopp út af of stórum skammti og hún bara deyr á Landspítalanum þessa helgi…“

 segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni á efnisveitunni Brotkast.is. Diljá ræðir í þessu viðtali um erfiða reynslu sem hún og fjölskylda hennar gekk í gegnum þegar Súsí systir hennar ánetjaðist fíkniefnum á skömmum tíma og lést úr ofskömmtun einungis 22 ára gömul.

Diljá segir að fjölskylda hennar hafi í raun fengið það staðfest að Súsí hafi fengið lyfin sem urðu henni að bana frá öðrum sjúklingi sem lá inni á spítalanum á sama tíma. Að hún hafi sem sagt fengið aðstoð frá honum við að setja fentanyl í lyfjabrunn sem hún var tengd við þar sem hún var að fá sýklalyf í æð á spítalanum.

„Hún fer í hjartastopp og þessi maður, augljóslega gátum við púslað því saman, að hann verður vitni að þessu en yfirgefur hana, skilur hana eftir í hjartastoppi og hún komst aldrei til meðvitundar. Þetta var rosalega erfitt fyrir okkur og sérlega sárt þar sem það var í raun bara klukkutíma spursmál hvenær hún kæmist inn í afeitrun.“

Á þessum tíma var Diljá nítján ára háskólanemi og systir hennar var hennar helsta fyrirmynd sem hún leit mikið upp til. Hún hafði verið að heimsækja systur sína daglega á spítalann en þegar andlátið bar að var hún búin að vera sár út í systur sína og var hætt að tala við hana og heimsækja. Það reyndist henni skiljanlega sérstaklega sárt.

„Þetta hafði náttúrlega mjög djúpstæð áhrif á mig persónulega og litla bróður mín líka sömuleiðis. Ég segi stundum að þetta hafi verið mjög dýrkeypt en mikilvæg lexía fyrir okkur fjölskylduna að maður lærir það svolítið að þú færð ekkert alltaf einn dag til viðbótar… til dæmis, þegar hún deyr þá er ég auðvitað búinn að komast að því af því að hún væri fallinn og á leiðinni á Vog og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hana að hún væri ekki edrú, þannig að ég var mjög reið út í hana og er í raun ekki að tala við hana þegar hún fellur frá. Ég þarf að lifa með því, að ég var bara nítján ára og hún stóra systir mín og mín helsta fyrirmynd en ég fæ þetta ekkert til baka.“ segir Diljá og viðurkennir að þessi lexía hafi leitt til þess að hún reyni ávalt að innræta börn sín með þeirri hugsun að maður viti aldrei hvort maður geti í raun sagt fyrirgefðu daginn eftir. Það er bara dagurinn í dag sem skipti máli og maður verði alltaf að nýta hann til að koma vel fram og skilja ekki við fólk í ósætti.

„Þú veist aldrei hvenær kallið kemur.“

Diljá segir alla þessa reynslu einnig hafa haft áhrif á hana sem stjórnmálamann en hún hafi ítrekað lagt fram þingályktunartillögur varðandi alhliðaþjónustu við fólk með vímuefnavanda og að mörkuð sé afgerandi stefna í þessum málaflokki. Hún segir samfélagið því miður vera enn með svokallaða innbyggða fordóma gagnvart fólki í þessum vanda og það hafi því miður afvegaleitt umræðuna oft á tíðum.

„Ef þetta væru krabbameinsjúklingar, ef þetta væru umferðarslys og við værum að horfa upp á tugi ungmenna deyja á hverju einasta ári þá værum við búin að vera með þjóðarátak og símasöfnun, en það er ekki þannig og það er út af þessum innbyggðu fordómum. Þannig að þó að við segjum að við séum komin á þann stað að við nálgumst þetta sem sjúkdóm þá erum við bara ekki alveg komin þangað.“

Diljá segir að lokum að hávær umræða um lögleiðingu fíkniefna sé annað mál sem afvegaleiði umræðuna og að hún sé persónulega ekki sammála þeirri nálgun.

„Já ég er ósammála því vegna þess að ef við erum tilbúin til að viðurkenna að þetta sé heilbrigðisvandi þá hlýtur það að vera forgangsmál númer eitt tvö og þrjú að sú heilbrigðisþjónusta standi til boða, og það er ekki þannig í dag. Fólk er að deyja á biðlistum eftir þessari heilbrigðisþjónustu.“

Sjáðu þetta áhrifamikla viðtal við Diljá Mist Einarsdóttur í fullri lengd inn á Brotkast.is

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing