Allir þrír drengir Eddu Bjarkar eru fundnir og eru þeir í þessum töluðu orðum á leið út á Keflavíkurflugvöll þar sem faðir þeirra bíður eftir þeim. Þeir munu fljúga til Noregs eftir skamma stund. Það dró heldur betur til tíðinda í dag þegar systir Eddu Bjarkar, Ragnheiður Arnardóttir, var handtekin með tvíburana í morgun á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður þessi hafði haldið í fram í fjölmiðlum að hún vissi ekkert um drengina en annað hefur þó komið á daginn. Þá vekur það sérstaka athygli að Hildur Sólveig Pétursdóttir, lögmaður Eddu Bjarkar, var einnig handtekin á skrifstofu sinni en samkvæmt heimildum Nútímans hafa þær báðar ítrekar logið að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar embættið leitaði þeirra síðustu daga.
Þá er það ljóst, eftir aðgerðir lögreglu í dag, að lögmaðurinn Hildur Sólveig laug blákalt að blaðamanni Nútímans í síðustu viku þegar hún hélt því ítrekað fram að engin leit væri í gangi að drengjunum. Þá hélt hún því einnig fram að lögreglan væri fyrir löngu hætt að rannsaka þetta mál og hélt Hildur Sólveig því líka fram við blaðamann að hún vissi ekki hvar drengirnir væru niðurkomnir. Eftir því sem Nútíminn kemst næst að þá var lögmaðurinn að segja ósatt þá líka.
Í forgangsakstri lögreglu upp á Keflavíkurflugvöll
Samkvæmt sömu heimildum bíður þeirra beggja, Ragnheiðar og Hildar Sólveigu, ákæra vegna brots á 193. grein almennra hegningarlaga en þar segir að hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum … 1) eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt – sama brot og Edda Björk var ákærð fyrir í Noregi.
Eins og áður segir fundust eldri bræðurnir tveir, tvíburar, með systur Eddu Bjarkar og það var svo núna á fjórða tímanum sem yngri bróðir þeirra fannst. Ekki hefur fengist staðfest hvar hann fannst. Þá herma heimildir Nútímans að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komi til með að aka í forgangsakstri á Reykjanesbrautinni upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeir munu hitta föður sinn í fyrsta skiptið í rúma tuttugu mánuði.
Nútíminn hefur á undanförnum vikum reynt að varpa ljósi á eitt af frægustu barnaránum samtímans á Íslandi en það er án efa mál Eddu Bjarka. Hún rændi þremur börnum sínum í þaulskipulagðri aðgerð í Noregi í lok mars á síðasta ári þar sem spunninn var blekkingarvefur og notaði hún einkaflugvél sem vellauðugur kærasti hennar greiddi fyrir.
Þá greindi Nútíminn frá því í síðustu viku að búið væri að leggja fram kæru á hendur kærasta Eddu Bjarkar, heildsalanum Karl Udo Luckas, en hann er sagður í kærunni hafa fjármagna brottnámið í fyrra auk þess sem hann er sagður hafa gerst sekur um brot á umræddri 193. grein. Ekki er vitað hvenær það mál verður tekið fyrir en samkvæmt heimildum Nútímans er það í ferli hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Það sér því loksins fyrir endann á þessu sorglega máli en þó má leiða líkum á því að eftirköstin eigi eftir að hafa áhrif á þá sem að málinu komu um ókomna tíð – að minnsta kosti þar til þeir sem sáu um að fela drengina á höfuðborgarsvæðinu þurfa að svara fyrir umrætt brot á 193. greininni.
Mál Eddu Bjarkar fyrir dómi – Búið að leggja fram kæru á hendur Luckas