Taylor Swift hefur aflýst þremur tónleikum í Vín, Austurríki eftir að tveir menn voru handteknir fyrir að hafa í hyggju að fremja hryðjuverk á tónleikunum. Einn þeirra er 19 ára gamall og var handtekinn í Ternitz suður af Vín og hinn í austurrísku höfuðborginni. Þetta staðfestir Franz Ruf, yfirmaður almannaöryggis hjá innanríkisráðuneyti Austurríkis.
Poppstjarnan, sem er 34 ára, átti að koma fram á Ernst-Happel leikvanginum í Vín alla helgina eða 8., 9. og 10. ágúst en til að byrja með átti aðeins að herða öryggisráðstafanir í kringum leikvanginn en nú er búið að blása þá af með öllu.
Kenndu sig við ISIS-hryðjuverkasamtökin
Mennirnir tveir eru taldir hafa átt í samskiptum við öfgatrúa menn í gegnum veraldarvefinn en þessi sem er 19 ára er sagður hafa haft sérstakan áhuga á tónleikum Swift í Vín. Það staðfesti Franz Ruf einnig. Þá kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu að mennirnir höfðu svarið hollustu sína við hryðjuverkasamtökin ISIS og það hafi þeir gert í júlí á þessu ári.
Sérsveit og sprengjuleitarsveit framkvæmdu húsleitir hjá mönnunum og fundu efni sem hægt er að nota til þess að búa til sprengju. Nöfn þeirra hafa ekki verið gerð opinber.
Búist við 65.000 áhorfendum á hverja tónleika
Fyrirtækið sem sér um að skipuleggja tónleikaferðalag stjörnunnar, Barracuda Music, gaf út yfirlýsingu í dag og sagði að þeim hafi verið aflýst þar sem stjórnvöld í Austurríki hafi staðfest að mennirnir hafi haft í hyggju að fremja hryðjuverk á tónleikunum.
„Þar sem stjórnvöld í Austurríki hafa staðfest fyrirhugaða hryðjuverkaárás á Ernst-Happel leikvanginum sjáum við okkur ekki fært annað en að aflýsa þremur fyrirhuguðum tónleikum til þess að tryggja öryggi allra,“ sagði í yfirlýsingunni.
Búist var við að allt að 65.000 manns myndu mæta á tónleikana hvern dag til viðbótar við þá 10 til 15 þúsund aðdáendur sem búist var við að myndu fjölmenna fyrir utan leikvanginn.