Þau gögn sem lögregla hefur undir höndum benda til þess að Birna Brjánsdóttir hafi engin samskipti haft við grænlensku mennina tvo sem grunaðir eru um að hafa ráðið henni bana.
Sérþjálfaðir björgunarsveitarmenn um borð í þyrlu Landshelgisgæslunnar fundu í dag lík í fjörunni við Selvogsvita á Reykjanesi.
Talið er um að lík Birnu sé að ræða en kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinnur að því að bera kennsl á líkið.
Nútíminn tók saman feril málsins
Ekki er hægt að segja til um dánarorsök hennar að svo stöddu en lögregla telur yfirgnæfandi líkur á því að henni hafi verið ráðinn bani. Líkur eru taldar á því að það hafi verið í rauða Kia Rio bílnum sem annar mannanna hafði á leigu.
Lögregla telur einnig yfirgnæfandi líkur á því að grænlensku mennirnir tveir hafi verið að verki. Þeir verða yfirheyrðir á morgun, mánudag eða á þriðjudag.
Réttarmeinafræðileg rannsókn sem gerð verður á líkinu mun vonandi leiða í ljós dánarorsök og þá mun lögreglan einnig vonandi vita hvers konar vopni hún leitar að.
Ekki er hægt að segja til að svo stöddu hvort Birnu hafi verið nauðgað en rannsóknin gæti einnig leitt það í ljós. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort áverkar séu á líkinu.
Lögregla telur að líkið hafi verið sett í sjóinn og því hafi skolað upp í fjöru. Ekki er talið að líkinu hafi verið varpað frá borði úr skipi en mögulegt er að líkinu hafi verið hent í sjóinn á öðrum stað en við Selvogsvita þar sem það fannst.
Enginn farsími eða aðrir munir fundust á líkinu.
Lögregla leggur áfram áherslu á að finna myndskeið sem gætu komið að gagni við rannsókn málsins og mun hún einnig halda áfram að fara yfir símagögn. Lögregla mun beina sjónum sínum enn betur að því svæði þar sem líkið fannst.
Mennirnir sem sitja í varðhaldi vita að blóð fannst í bílnum. Þeir hafa þær upplýsingar þó ekki frá lögreglu.
Lögregla vill ekki gefa upp hvort lífssýni úr Birnu hafi fundist á fleiri stöðum en í rauða Kia Rio bílnum. Sagðist Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, aðspurður ekki geta farið út í það en benti á að lögregla hefði lagt hald á nokkra muni um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq.
Lögregla tók fram að leit vegna rannsóknar málsins sé ekki lokið. Áhersla er lögð á að kortleggja ferlið frá því að bílnum var ekið frá Hafnarfjarðarhöfn kl. 7 laugardaginn 14. janúar og þangað til að honum var ekið þangað aftur um kl. 11.30.
Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til vegna rannsóknarinnar á hvarfi Birnu.
Tilkynning frá Landhelgisgæslunni vegna málsins
Um klukkan eitt í dag fann áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, lík í fjörunni rétt vestur af Selvogsvita, sem er um 15 kílómetra vestur af Þorlákshöfn.
Þyrlan lenti skammt frá vettvanginum og var lögreglu strax gert viðvart. Hún kom á staðinn skömmu síðar. Talið er að líkið sé af Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið frá því á laugardag fyrir rúmri viku.
TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 10.40. Áformað var að fljúga meðfram strandlengjunni frá Hafnarfirði, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanes og allt austur að Þjórsárósum. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan 16.10.