Einar Guðberg Jónsson rannsóknarlögreglumaður lýsir í viðtali á vef The Independent hvað gerist eftir að Nikolaj Olsen yfirgaf rauða Kia Rio bílaleigubílinn á Hafnarfjarðarhöfn aðfaranótt laugardagsins 14. janúar.
„Annar maðurinn var mjög ölvaður og yfirgaf bílinn til að fara um borð í skipið. Birna og hinn maðurinn keyra í burtu og það eru fjórir klukkutímar sem við höfum ekki náð að kortleggja,“ segir Einar.
Maðurinn snýr svo aftur án Birnu og hann sést á eftirlitsmyndavélum þrífa bílinn á höfninni. Hann skilar svo bílnum á bílaleiguna og fer um borð í skipið, sem fór úr höfn um kvöldið.
Einhver misskilningur virðist vera í gangi þar sem Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir á mbl.is augljóst að einhverjir fjölmiðlar hafi séð umrætt myndband frá Hafnarfjarðarhöfn. „Ég hef ekki farið út í það hvað kemur fram í þessum myndböndum,“ segir hann.
Frétt mbl.is er birt í dag en frétt The Indebendent um málið birtist í gær.