Auglýsing

Tengja ekki dekkjakurl við krabbamein fjölda fótboltamanna

Rannsókn heilbrigðisyfirvalda í Washington í Bandaríkjunum bendir ekki til þess að þau sem æfa fótbolta, meðal annars á gervigrasvöllum með dekkjakurli, séu líklegri til að greinast með krabbamein en annað fólk á sama aldri.

Yfirþjálfari kvennaliðs Háskólans í Washington hefur safnað saman nöfnum þeirra sem sem hafa æft fótbolta í fylkinu síðustu ár og eiga það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein. Markmenn eru í meirihluta á listanum. Hún vill vita hversu hættulegt dekkjakurlið er.

Mikil umræða hefur skapast um notkun dekkjakurls á gervigrasi vegna skaðlegra efna í því, bæði hér á landi og erlendis. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á orsakasamband á milli notkunar dekkjakurls og heilsubrests og fátt er talið benda til þess að kurlið sem notað er á gervigrasvöllum landsins sé heilsuspillandi.

Víða um land hefur verið skipt um gervigras á sparkvöllum við skóla og á gervigrasvöllum íþróttafélaga.

Listi fótboltaþjálfarans vakti sem áður segir athygli heilbrigðisyfirvalda í Washington. Ákveðið var að kanna hvort tíðni krabbameins meðal þessa hóps væri hærri en hjá öðrum íbúum Washington á sama aldri.

Svo reyndist ekki vera. Hún reyndist í raun vera lægri hjá fólkinu á lista þjálfarans. Þegar rannsóknin varð gerð voru rúmlega fimmtíu nöfn á listanum, nöfn fótboltamanna sem voru á aldrinum 6 ára til 24 ára og höfðu greinst með krabbamein á árunum 2002 til 2015. Núna eru 237 nöfn á listanum.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar er bent á ýmsa galla við hana, til að mynda að listi þjálfarans taki ekki til allra í fylkinu sem greindust með krabbamein á árunum 2002 til 2015 og voru á aldrinum 6 ára til 24 ára.

Þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar nýlega var sérstaklega tekið fram að rannsóknin var ekki hönnuð til að kanna af hverju fólkið á listanum fékk krabbamein eða til að kanna frekar hvort slæmt sé að hafa dekkjakurl í undirlagi fótboltavalla.

Þjálfarinn vill fleiri rannsóknir á málinu og telur enn að dekkjakurlið hafi slæm áhrif.

Hún veltir einnig fyrir sér af hverju svo margir markmenn eru á listanum hennar. Hún bendir á að þeir falli oftar í jörðina en hinir leikmennirnir. Eftir tíu mínútna upphitun hafa markmennirnir jafnvel lent allt að hundrað sinnum í jörðinni og þar sem komist í snertingu við dekkjakurlið.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing