Í gærmorgun mældist aukin smáskjálftavirkni á Sundhnúkgígaröðinni. Virknin stóð yfir í um 50 mínútur og eru að öllum líkindum merki um að þrýstingur sé að aukast í kerfinu. Síðustu viku hefur fjöldi skjálfta á dag farið hægt vaxandi.
Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir að samkvæmt líkanreikningum sem gerðir hafa verið í tengslum við kvikusöfnunina er nægur þrýstingur búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á svæðinu.
Styttist í næstu kvikuhlaup eða eldgos
GPS mælingar sýna að síðustu daga hefur hægt örlítið á landrisinu. Þegar sú þróun í landrisi fer saman við jarðskjálftavirkni líkt og mældist á Sundhnúksgígaröðinni í gær, geta það verið vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos.
„Því eru auknar líkur á að það dragi til tíðinda á næstu 7 – 10 dögum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.