Líklega verður farið fram á gæsluvarðhald yfir þremur grænlenskum sjómönnum sem handteknir voru á togaranum Polar Nanoq í gær. Þeir voru yfirheyrðir á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nótt og lauk yfirheyrslum um klukkan átta í morgun.
Mennirnir hafa allir réttarstöðu grunaðs manns og er hvarf Birnu Brjánsdóttur rannsakað sem sakamál.
Sjá einnig: Leitin að Birnu, svona er staðan á málinu
„Ég held að það sé óhætt að segja að ég hef verið að reyna að víkja mér undan því að svara hvort þetta sé sakamál eða ekki. Það er það náttúrulega, það er verið að rannsaka hvort hvarf Birnu hafi borið að með saknæmum hætti,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknarinnar á hvarfi Birnu, í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Rannsókn um borð í grænlenska togaranum lauk snemma í morgun en tæknideild lögreglunnar var þar að störfum í alla nótt. Aðrir meðlimir áhafnarinnar voru yfirheyrðir sem vitni og þá var framkvæmd leit í skipinu.
Grímur segir líklegt að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur sem voru yfirheyrðir í nótt, segir í frétt RÚV.
Nútíminn hefur tekið saman tímalínu Birnu frá því hún yfirgaf Húrra og tímalínu rauða bílsins í eftirlitsmyndavélum:
- Tímalína Birnu frá því hún yfirgaf Húrra útskýrð
- Tímalína rauða bílsins í eftirlitsmyndavélum útskýrð
Hægt er koma upplýsingum á framfæri í síma lögreglu 444 1000 eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.