Sendiferðabíl var ekið á hóp fólks á Römblunni í miðborg Barselóna í dag. Fjöldi sjúkrabíla er á staðnum en fólk er hvatt til að halda sig inni.
Hér er það sem við vitum um málið:
- Einn er látinn og 32 særðir. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar
- Nærstaddir flýðu inn í verslanir og kaffihús í grenndinni þegar sendibíllinn ók inn í hópinn.
- Sendiferðabíllinn var hvítur að lit og ökumaður bílsins stakk af.
- Vígbúnir lögreglumenn ganga um götur borgarinnar
- Lögreglan hefur sett upp vegatálma víða um borgina vegna fregna um að annar bíll hafi tengst árásinni. Guardian segir frá þessu.
- Spænska lögreglan staðfestir að árásin sé hryðjuverk og að sérstök viðbúnaðaráætlun vegna hryðjuverkaárása hafi verið virkjuð.
- Spænskir fjölmiðlar segja að einn þeirra sem grunaður er um að hafa komið að árásinni hafi verið skotinn til bana í skotbardaga við lögregluna.
- Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa lýst árásinni á hendur sér.