Auglýsing

Það sem við vitum um manndrápið í Mosfellsdal: Lést af völdum áverka eftir hrottalega árás

Karlmaður á fertugsaldri lést í gærkvöldi vegna áverka sem hann hlaut í hrottalegri líkamsárás við Æsustaði í Mosfellsdal. Sex voru handteknir í gær vegna málsins, fimm karlmenn og ein kona og mun lögregla ákveða seinna í dag yfir hversu mörgum þeirra verður farið fram á gæsluvarðhald.

Þetta er það sem vitað er um manndrápið í Mosfellsdal

Hópur fólks bankaði upp á hjá manni á fertugsaldri á Æsustöðum í Mosfellsdal um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Á heimilinu var einnig kærasta mannsins og nokkurra vikna barn þeirra.

Kærasta mannsins kom til dyra og bað fólkið um að fá að ræða við manninn. Þegar hann kom til dyra réðst hópurinn á hann með járnkylfum, tók hann hálstaki, setti hendur hans fyrir aftan bak og lét högg dynja á honum. Þá var pallbíl ekið yfir fætur mannsins.

Lögreglan var kölluð út að Æsustöðum kl. 18.24 í gærkvöldi vegna málsins. Fjölmennt lið lögreglu mætti á staðinn, þar með sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Tilraun var gerð til að endurlífga manninn á vettvangi. Hann var úrskurðaður látinn á Landspítalanum.

Sex voru handteknir í gærkvöldi, fimm karlmenn og ein kona. Þau voru yfirheyrð í alla nótt og fram undir morgun. Þau voru ekki öll handtekin á vettvangi glæpsins, heldur var hluti þeirra handtekinn á Vesturlandsvegi.

Tveir hinna handteknu eru sagðir vera bræður sem hlutu rúmlega tveggja ára dóm í febrúar fyrir skotárás í Breiðholti. Mennirnir áfrýjuðu dómnum til Hæstaréttar en þeir sátu um tíma í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna vegna skotárásarinnar. Þá er einn þeirra handteknu sagður vera stofnandi mótorhjólaklúbbsins Fáfni, síðar meðlimur Outlaws en hann hefur einnig komist í kast við lögin.

Lögregla lagði hald á tvo bíla í gærkvöldi vegna rannsóknar málsins, annan á vettvangi og hinn á Vesturlandsvegi.

Í morgun hefur lögregla unnið að því að fara yfir framburði fólksins og raða saman atburðarrásinni. Eftir það verður ákveðið yfir hversu mörgum verður farið fram á gæsluvarðhald yfir.

Fleiri en eitt vitni var að árásinni en það var sjónarvottur sem tilkynnti hana til lögreglu.

Málið er sagt tengjast handrukkun og segir lögregla að maðurinn sem lést hafi þekkt fólkið sem réðst á hann.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing