Auglýsing

Það sem við vitum um myndun meirihluta í Reykjavík

Viðræður stjórnmálaflokkanna um myndun nýs meirihluta í Reykjavík standa nú yfir en fáir hafa sýnt á spilin. Það vilja þó ekki allir vinna saman. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur og vill vinna með öllum en það vilja ekki allir vinna með honum. Viðreisn er sögð vilja vinna með fráfarandi meirihluta en bara með nýjum borgarstjóra og Sósíalistaflokkurinn hefur útlokað að taka þátt í meirihlutaviðræðum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk átta fulltrúa kjörna en er samt í nokkuð þröngri stöðu. Að minnsta kosti þrír flokkar hafa útilokað samstarf við hann þó oddvitinn Eyþór Arnalds útiloki ekki samstarf við neinn.

Samfylkingin fékk sjö fulltrúa kjörna. Oddvitinn Dagur B. Eggertsson hefur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en reynir eflaust að halda núverandi meirihlutasamstarfi áfram með aðkomu Viðreisnar.

Viðreisn fékk tvo fulltrúa kjörna. Margir telja að flokkurinn sé í lykilstöðu í myndun nýs meirihluta enda hefur hann ekki útilokað samstarf við neinn, þó talið sé að flokkurinn eigi ekki samleið með Miðflokknum. Kjarninn greinir frá því að hægt verði að ganga frá myndun nýs meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna hratt ef Samfylkingin felst á þá kröfu Viðreisnar að ráðinn verði borgarstjóri.

Píratar fengu tvo fulltrúa kjörna. Oddvitinn Dóra Björt Guðjónsdóttir útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en segist tilbúin í samstarf við alla aðra flokka sem náðu inn í kosningunum á laugardaginn.

Sósíalistaflokkurinn fékk einn fulltrúa kjörinn. Oddvitinn Sanna Magdalena Mörtudóttir segist ekki ætla að að taka þátt í viðræðum við neinn flokk um meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur.

Vinstri græn fengu einn fulltrúa kjörinn. Líklegast þykir að oddvitinn Líf Magneudóttir reyni að halda núverandi meirihlutasamstarfi VG, Samfylkingar og Pírata áfram með aðkomu Viðreisnar.

Miðflokkurinn fékk einn fulltrúa kjörinn. Oddvitinn Vigdís Hauksdóttir hefur ekki látið mikið fyrir sér fara undanfarna daga. Flokkurinn er hvorki talinn eiga samleið með flokkunum í fráfarandi meirihluta né Viðreisn.

Flokkur fólksins fékk einn fulltrúa kjörinn. Á vef Fréttablaðsins segist oddvitinn Kolbrún Baldursdóttir, geta unnið með hverjum sem er, fái málefnaáherslur flokksins brautargengi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing