Birgir Sævarsson söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar The Hefners tilkynnti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi að hljómsveitin muni ekki koma aftur fram í „blackface“ gervi. Upplýsandi umræða síðustu daga hafi orðið til þess að hann skipti um skoðun á notkun gervisins.
Sjá einnig: Króli mætti hroka og hæðni þegar hann gagnrýndi „blackface” gervi hljómsveitar á Húsavík
Rapparinn Króli gagnrýndi hljómsveitina í Facebook-færslu fyrir að nota gervið en það er afar umdeilt og þykir niðrandi í garð fólks sem er dökkt á hörund.
Birgir svaraði gagnrýni Króla fullum hálsi í færslu á Facebook á sunnudag þar sem hann sagði hljómsveitina hafna hvers konar fordómum, hatri og illsku og að það sé miður að fólk túlki sýningu hljómsveitarinnar sem einhvers konar kynþáttafordóma.
„Síðasta sólahringinn hafa miklar og skoðanasterkar umræður myndast eftir að tónlistarmaðurinn Króli hóf umræðu um farðanir hljómsveitarinnar The Hefners sem ég er söngvari í. Eins og ég hef sagt í fyrri yfirlýsingu er hatur og illska víðs fjarri okkar sýningu þó einhverjir sjái annað úr þessu,“ sagði Birgir í tilkynningunni.
Hann segir nokkra hljómsveitarmeðlimi hafa litað andlit sitt dökkt svo þeim svipi til meðlima hljómsveitarinnar Earth, Wind and Fire auk annara hljómsveita í þeim flokki tónlistar. „Við höfum því verið að heiðra þetta frábæra band ásamt öðrum í gegnum árin og þykir okkur miður að það minnir einhverja á ljóta sögu réttindabaráttu litaðs fólks.“
Hann segir það sína persónulega skoðun að gervið hafi verið ónærgætið en hann hafi ekki hugsað um það fyrr en að ábendingunum rigndi yfir hann.
„Ég hef semsagt breytt um skoðun, það er það fallega við skoðanir, maður getur breytt þeim. Ég hér með bið alla sem við höfum sært með okkar framferði afsökunar um leið og ég fagna þessari umræðu sem skapast hefur. Ég persónulega tel að fólk, þar á meðal ég sjálfur, sé betur upplýst en fyrri daginn um þessi málefni.“
Aldrei sé of seint að sjá að sér og biðjast afsökunar og Birgir staðfestir það að hljómsveitin The Hefners muni ekki koma aftur fram með dökkan farða sem svipar til umræðunnar.