Hinar íslensku „Thelma & Louise“ ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram á laugardag, 18. ágúst. Þær stöllur Telma Lind Stefánsdóttir og Louisa Sif Mönster eiga þó líklega ekkert sameiginlegt með glæpakvendunum úr kvikmyndinni vinsælu annað en nöfnin. Þær ætla að hlaupa fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) en þær hafa safnað mestum pening fyrir félagið, tæplega milljón samtals, þegar þetta er skrifað.
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna var stofnað árið 1991 af foreldrum barna með krabbamein en tilgangur félagsins er að styðja krabbameinssjúk börn og aðstandendur og gæta hagsmuna þeirra.
Félagið sinnir fræðslustarfsemi um sérstöðu og þarfir krabbameinsveikra barna og um síðbúnar afleiðingar eftir krabbameinsmeðferðir en það hefur einnig stutt starfsfólk Barnaspítala Hringsins til að efla sig faglega með þáttökum á ráðstefnum og námskeiðum.
Sonur Telmu Lindar, Nói Stefán, greindist með hvítblæði þann 21. febrúar síðastliðinn en hann er aðeins þriggja ára gamall. Þau mæðgin ætla að hlaupa saman, jafnvel þó þau verði síðustu í mark en Telma segir Nóa hlakka mikið til hlaupsins. Telma hefur safnað rúmlega 800 þúsund krónum.
Júlía Rut dóttir Louisu greindist með bráðahvítblæði 15. september 2017 og hefur fjölskyldan fengið góðan stuðning frá SKB síðan Júlía greindist. Louisa ætlar að hlaupa með syni sínum Sölva en hún hefur safnað 115 þúsund krónum.
Þær stöllur hafa því safnað samtals tæplega milljón fyrir SKB en félagið er rekið fyrir sjálfsafla- og gjafafé.
Hægt er að heita á þær Telmu og Louisu hér.