Osvaldo Peña Garcia, sjálfskipaður „tælitæknir“, er væntanlegur til landsins í maí til að halda námskeið á vegum fyrirtækisins Real Social Dynamics í að tæla konur. Þetta kemur fram á mbl.is.
Real Social Dynamics komst í fréttir um allan heim árið 2014 þegar vegabréfsáritun flagaraþjálfarans Julian Blanc var afturkölluð í Ástralíu. Blanc ætlaði að halda námskeið í að tæla konur þar í landi en kennsluaðferðir hans þykja í besta falli vafasamar þar sem hann beitir oft blekkingum ásamt andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Blanc var kallaður „hataðasti maður í heimi“. Hann ætlaði að halda námskeið í Reykjavík sama ár en hætt var við það í kjölfar harðra viðbragða almennings. Hér á landi söfnuðust til að mynda 11 þúsund undirskriftir á íslensku síðuna „Stoppum Julien Blanc“.
Í frétt mbl.is kemur fram að fyrirtækið sé aftur komið á fulla ferð og á vefsíðunni er hægt að kaupa miða á námskeið á Íslandi. Námskeiðið er fyrirhugað helgina 6. til 8. maí og til þess að skrá sig á þarf að greiða tryggingu upp á 500 dali. Heildarverð námskeiðsins er 2.000 dalir eða um 260 þúsund krónur.
Kennarinn á námskeiðinu gengur undir nafninu Ozzie og er höfundur bókarinnar The Physical Game sem ber undirtitilinn:„Leiðbeiningar tælitæknis um hvernig skal nálgast, leiða líkamlega og sænga hjá konum.“
Á heimasíðu bókarinnar hvetur Garcia menn til að nota líkamlega yfirburði sína til að nálgast konur. Hann segist ekki vera að tala um ofbeldi heldur að karlar séu fastir fyrir og taki stjórnina í því að gera samskipti við konur líkamleg.
Það þýðir að þú verður að sjá fyrir mótstöðu af þeirra hálfu og vera tilbúinn að plægja í gegnum hana. […] Óttinn við höfnun getur virkað letjandi á marga þegar þeir byrja að fara líkamlegu leiðina. […] Staðreyndin er sú að konur eru að bíða eftir að þú reynir við þær.
Hér fyrir neðan má sjá myndband frá síðustu heimsókn Garcia til landsins árið 2012.
https://youtu.be/oGt8AWqfsQI