Umræður um þriðja orkupakkann stóðu yfir í 19 klukkutíma á Alþingi í gær og í nótt. Steingrímur J. Sigfússin, forseti Alþingis, sleit umræðum klukkan 8:40 í morgun því þá voru nefndarfundir á nefndarsviði Alþingis að hefjast. Þetta kemur fram á vef RÚV í dag.
Þingmenn Miðflokksins tóki aðeins til mála lengst af fram eftir nóttu og skiptust á að flytja ræður og andsvör frá því klukkan 22:32 í gærkvöldi.
Steingrímur J. Sigfússon var rólegur yfir lengd þingfundarins þegar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins spurði hvað stæði til að hann myndi halda lengi áfram, klukkan 3:23 í nótt.
„Nú hefur komið í ljós að háttvirtir þingmenn hafa mikla þörf fyrir að tjá sig. Annríki fer vaxandi á þinginu og ekki mjög margir þingdagar eftir. Og þá er að sjálfsögðu eðlilegt að bregðast við þessari þörf þingmanna með því að lengja þingfund. Og ég geri ráð fyrir að háttvirtir þingmenn Miðflokksins sem hafa mikla þörf fyrir að ræða þetta mál, og ræða saman um það og fara í andsvör við sig sjálfa, þeir fagni því að það sé búið til rými fyrir þá til að flytja sínar ræður. Og þar með er þetta allt í góðu lagi og okkur ekki að vanbúnaði að nýta bjarta vornóttina til þess að eiga þessar uppbyggilegu samræður.“
Þriðji orkupakkinn verður aftur til umræðu á þinginu í dag en þingfundur hefst klukkan 13:30.
Það var í 97. andsvari Önnu Kolbrúnar við 79. ræðu Karls Gauta, um sögu virkjana á Íslandi, sem ég sannfærðist loksins og er nú mótfallin OP3.
— Hildur Karen (@HildurKarenSv) May 21, 2019