Auglýsing

Þingkona Framsóknar smyglaði pylsu til landsins

Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknar, fór nýlega til Frakklands ásamt eiginmanni sínum. Þegar hún sneri heim hafði hún með sér pylsu en innflutningsbann er á slíkum varningi.

Elsa Lára birti myndir frá ferðalagi sínu á Facebook og sagði þar: „Æðislegt, kom heim með einhverja pylsu, makkarónur, ost og súkkulaði. Hlakka til að hafa tíma til að njóta þess namm.“

Á vef tollstjóra kemur fram að almennt skilyrði fyrir innflutningi kjötvara hvers konar sé að þær séu soðnar eða niðursoðnar:

Reyking, söltun eða þurrkun án suðu er ekki fullnægjandi. Til dæmis er óheimilt að flytja inn beikon, pylsur (salami, spægipylsur og hvers konar reyktar ósoðnar pylsur), hamborgarhryggi, fugla, ósoðna mjólk og ósoðin egg.

Þetta er kaldhæðnislegt í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur lagst gegn breytingum á innflutningi á kjöti.

Þegar umræðan um hugmyndir verslunarisans Costco um að opna hér á landi stóð sem hæst í sumar sagði Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í fréttum Stöðvar 2, að langlífi Íslendinga byggðist á góðu matarræði.

„Viljum við fórna því, að spara kannski einhverjar krónur í innfluttu kjöti, gegn heilsuleysi síðar á ævinni,“ sagði hún.

„Ég segi nei takk. […] Kannski virkar það sem ákveðin forræðishyggja en ég vil að við stöndum vörð um það sem við eigum, þegar að það er vottað bæði hérlendis og erlendis sem gæðavara.“

Þá varaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra við neyslu á erlendu kjöti í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fimmtudaginn 14. ágúst:

„Það er til að mynda til veira sem veldur því að hegðun fólks breytist. Ef menn borða til dæmis kjöt erlendis sem er ekki nógu vel eldað, sérstaklega, þá eiga menn á hættu að innbyrða þessa sýkingu og hún getur leitt til breytingar á hegðunarmynstri. Þannig að menn hafa jafnvel velt upp þeirri spurningu og rannsakað það hvort að þetta kunni að vera að breyta hegðun heilu þjóðanna.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing