Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls á Alþingi í gær þegar þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu í lokaatkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs. Fimm þingkonur gengu út úr sal Alþingis á meðan Sigmundur talaði. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þær Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Halla Signý Kristjánsdóttir úr Framsóknarflokki, Helga Vala Helgadóttir úr Samfylkingunni, Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins fóru allar úr salnum á meðan Sigmundur talaði.
Þegar Sigmundur lauk máli sínu sneru þingkonurnar aftur í salinn og settust. Myndband af atvikinu má finna á vef RÚV en stemningin í þingsal er vægast sagt óþægileg.