Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, gagnrýnir skopmynd Morgunblaðsins harðlega í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Fjölmargir aðrir hafa gagnrýnt myndina, sem má sjá hér fyrir neðan, á samfélagsmiðlum.
„Hversu lágt er hægt að leggjast í sorpblaðamennsku? Ég tel að neðar sé ekki hægt að fara,“ segir Páll Valur.
Þessi mynd sem á að kallast skopmynd er ekkert annað en viðbjóður og Morgunblaðinu og eigendum þess til ævarandi skammar.
Páll Valur rifjar upp að Davíð Oddsson, annar ritstjóra Morgunblaðsins sé fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.
„Hann tók sem slíkur ákvörðun við annan mann án samráðs við þjóð eða þing að fara með stríð á hendur annarrar þjóðar,“ segir Páll Valur.
„Stríð sem hugsanlega á einn stærstan þátt í þeim skelfilegu hörmungum sem dynja á þjóðum í Mið-Austurlöndum og Norðanverðri Afríku. Hörmungum sem leiða til þess að fólk flýr heimili sín og leitar skjóls í Evrópu og upplifir ótrúlegar þjáningar á flótta sínum, nauðganir, limlestingar, mansal og dauða.“
Myndina má sjá hér fyrir neðan.