Auglýsing

Þingmenn orðnir þreyttir á málþófi Miðflokksins: „Ekkert nýtt í málinu og löngu búið að svara öllum spurningum“

Þingmenn Miðflokksins hafa haldið þinginu í gíslingu síðustu daga samkvæmt Bryndísi Haraldsdóttir, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hún segir að núverandi fyrirkomulag gangi ekki til framtíðar í grein í Frétta­blað­inu í dag þar sem hún fjallar um málþóf Miðflokksins í tengslum við umræður um þriðja orkupakkann á Alþingi.

Þingmenn Miðflokksins hafa einir rætt á milli sín málefni þriðja orkupakkans í samtals fjórar nætur á þinginu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið dugleg að tjá sig um málþófið á Twitter en hún benti á það á sunnudaginn að ekkert nýtt hafi komið fram í umræðum Miðflokksins. Síðan þá hafa tvær nætur til viðbótar farið í frekari umræður.

Sjá einnig: Aftur var þriðji orkupakkinn ræddur alla nóttina

Í gærkvöldi sagði hún frá því að Miðflokksmenn væru farnir að tala um hvað kostaði í sund þegar klukkan var ekki orðin níu. „Þetta verður löng nótt,“ skrifaði Áslaug og hafði rétt fyrir sér, þingfundur stóð til klukkan 6 í morgun.

Bryndís bendir á það í grein sinni í Fréttablaðinu að mál­þóf eigi ekk­ert skylt við mál­frelsi eða lýð­ræði og að það þekk­ist hvergi utan Íslands.

„Þegar andstæð sjónarmið hafa komið fram í þingsal er nauðsynlegt að leiða mál til lykta, ýmist með málamiðlunum eða með atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. Hvort sem þingmenn verða undir eða yfir í einstaka málum er óumdeilt að þetta er skilvirk og sanngjörn aðferð til að komast að niðurstöðu. Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið,“ skrifar hún.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing