Şenol Güneş, þjálfari Tyrkneska landsliðsins, er alls ekki sáttur við móttökurnar sem liðið fékk við komuna til landsins í gærkvöldi, en leikmenn og þjálfarateymið þurftu að fara í gegnum sérstakt vegabréfseftirlit og urðu því tafir á ferðum Tyrkjanna. Hann segir að þeim hafi verið mætt með dónaskap og lítilsvirðingu. Güneş gengur einnig svo langt að segja að íslendingar séu þröngsýnni en áður fyrr.
„Fótbolti er magnaður og á að sameina fólk. Ég kom til Íslands 1976, það var í september og það var kalt en viðmót fólksins var hlýtt. Nú virðist það vera þröngsýnna. Ég er búinn að vera í fótbolta í 53 ár og ég hef aldrei lent í öðru eins. Starfsmennirnir voru að hrista vegabréfið mitt. Hvers vegna? Það þurfti að skoða allt dótið mitt, símann og allt.“
,,Hvað var að vegabréfinu mínu? Þeir tóku snyrtivörur, vökva og síma. Hvað voru þeir að reyna að gera? Ísland er lítið land en með því að haga sér svona ertu að gera lítið úr sjálfum þér, þetta gerist utan vallar. Ég er að útskýra mál mitt.“
„Fólkið á Íslandi hefur breyst frá því að ég kom hingað síðast en ég vonast eftir því að sambandið milli þjóðanna haldist gott.“
Sjá einnig: Tók viðtal við landsliðsmann Tyrkja með uppþvottabursta og allt varð brjálað
Hann minntist þá einnig á Aron Einar Gunnarsson sem sagði fyrr í dag að íslenska liðið hefði lent í svipuðum aðstæðum þegar það ferðaðist til Konya í Tyrklandi árið 2016. Güneş gefur lítið fyrir orð landsliðsfyrirliðans.
,,Aron Einar sagði að þeir hefðu upplifað sömu hluti í Konya, það er líka rangt. Ef þessi meðferð kom vegna þess að svona var tekið á móti þeim í Konya, þá er það mjög rangt viðhorf. Við erum stór þjóð og högum okkur ekki svona, núna loka ég málinu. Flug í sex og hálfan tíma og svo tveggja tíma bið á flugvellinum“, sagði Güneş.