Þjóðhátíðarnefnd leggur sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi á hátíðinni í ár. Fimm eftirlitsmyndavélum til viðbótar við þær tólf sem fyrir eru verður komið fyrir á svæðinu til að auka öryggi gesta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þjóðhátíðarnefnd.
Á föstudagskvöldið munu hljómsveitir, gestir og gæsla vera með sameiginlega athöfn til að sýna með táknrænum hætti að ofbeldi á Þjóðhátíð verði ekki liðið. Þetta var ákveðið í kjölfarið á því að sjö hljómsveitir hótuðu að hætta við að koma fram á hátíðinni að óbreyttu.
„Þessi athöfn og starfshópur sem skipaður mun verða í kjölfar hátíðarinnar verður vonandi vísir að hugarfarsbreytingu gagnvart kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi,“ segir í tilkynningunni.
20 menntaðir lögreglu- og sjúkraflutningamenn verða innan gæslusveitar hátíðarinnar. „Þegar álagið er hvað mest á svæðinu eru um 100 manns í gæslu,“ segir í tilkynningunni.
„Í um 200 metra fjarlægð frá Brekkusviði er sjúkraskýli þar sem læknisþjónusta er veitt frá 20 til 8 alla hátíðardagana, þar starfar læknir og þrír hjúkrunarfræðingar.“
Loks verður forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn áberandi á hátíðinni í ár. Markmið hópsins er að fræða þjóðhátíðargesti um kynlíf og samþykki.