Þjóðminjasafn Íslands hafnaði beiðni um að varðveita síðasta McDonalds hamborgarann á Íslandi og lagði til að honum yrði hent. Þetta kemur fram á mbl.is.
Hjörtur Smárason keypti borgarann 31. október 2009 áður en staðnum var lokað en fyrsti McDonalds-staðurinn opnaði í Reykjavík árið 1993. Hamborgarinn er nú til sýnis á barborði Bus Hostel og er í góðu standi, samkvæmt frétt mbl.is.
Hjörtur segir í samtali við mbl.is Þjóðminjasafninu enn standa til boða að fá borgarann í safnið og telur að hann myndi sóma sér vel umkringdur kumlum og fornum klæðum.
Aðalheiður Ýr Gestsdóttir, rekstrarstjóri Bus Hostel, segir á mbl.is að hamborgarinn veki mikla lukku meðal gesta hostelsins:
„Fólk ætlar yfirleitt ekki að trúa því að hann sé í þetta flottu ástandi, að hann sé þetta gamall. Einhverjir óprúttnir gestir hafa meira að segja stolið sér frönskum, það voru mun fleiri franskar upprunalega,“ segir hún.