Thom Yorke, söngvari Radiohead, hefur sent frá sér aðra sólóplötu sína; Tomorrorw’s Modern Boxes. Yorke fer óhefðbundna leið við að dreifa plötunni og gerir það í gegnum torrent-síðuna BitTorrent. Þar fæst hún gegn 6 dala greiðslu.
Yorke segir í tilkynningu að þessi leið gæti umbylt tónlistarbransanum:
Þetta er tilraun til að sjá hvort virkni kerfisins sé eitthvað sem almenningur getur náð utan um. Ef þetta virkar vel gæti þetta orðið leið til að færa valdið yfir verslun á internetinu aftur til fólksins á bakvið vinnuna. Þannig getur fólk sem býr til tónlist, myndbönd eða annað stafrænt efni selt það sjálft og komist þannig framhjá sjálfskipuðum vörðum núverandi kerfis. Ef þetta virkar geta allir gert þetta eins og ég.
Yorke hefur gagnrýnt hvernig tónlist er dreift á netinu og viðrað efaemdir sínar um að t.d. Spotify sé að greiða listamönnum nógu mikið fyrir streymi. Radiohead hefur í seinni tíð farið eigin leiðir í dreifingu á plötum sínum. Hljómsveitin leyfði til dæmis aðdáendum sínum að greiða eins mikið eða lítið og þeir vildu fyrir niðurhal á plötunni In Rainbows sem kom árið 2007.
Tomorrows’s Modern Boxes er önnur sólóplata Yorke og fylgir eftir plötunni The Eraser, sem kom út árið 2006. Hér fyrir neðan geturðu hlustað á fyrsta lag plötunnar, A Brain in a Bottle: