Auglýsing

Thomas breytir framburði sínum fyrir dómi og segir allt aðra sögu af atburðum kvöldsins

Thomas Møller Ol­sen, sem grunaður er um að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur, breytti framburði sínum fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Hann sagði aðra sögu af atburðunum sem áttu sér stað aðfaranótt laugardagsins 14. janúar.

Skýrslutaka yfir Thomasi hófst í morgun og stendur enn yfir. Hann lýsti því þegar hann og Nikolaj Olsen fóru á djammið og enduðu saman í rauða Kia Rio bílaleigubílnum. Nikolaj var einnig handtekinn í tengslum við málið á sínum tíma en var sleppt eftir yfirheyrslur.

Thomas sagði að Birna hafi komið inn í bílinn og að þau hafi villst á leiðinni inn í Hafnarfjörð. Hann sagði að Nikolaj hafi viljað eyða tíma í einrúmi með Birnu. Hann sagðist hafa farið út að pissa til að leyfa þeim að spjalla saman í friði og sagðist svo hafa séð Nikolaj keyra í burtu. Hann var ekki með símann sinn á sér.

Athygli vakti að Thomas hafði talað um við skýrslutökur lögreglu að tvær stúlkur hafi komið inn í bílinn. Í morgun talað hann aðeins um eina. Hann sagðist ekki átta sig á hversu langur tími leið þangað til Nikolaj sneri aftur á bílnum. Hann segir að Nikolaj hafi verið einn í bílnum þegar hann sneri aftur og að hann hafi sagt að stúlkan hafi átt heima þarna nálægt og ákveðið að ganga heim.

Þá segist hann hafa tekið eftir því að Nikolaj hafi verið stressaður og nuddað saman höndunum þegar hann sneri aftur. Spurður hvort hann hafi skoðað bílinn sagðist hann ekki hafa gert það. Við rannsókn málsins kom í ljós að bíllinn hafi verið þrifinn og að blóð úr Birnu hafi fundist í honum. Thoma sagðist síðar hafa þrifið brúnan blett í aftursæti bílsins og sagðist ekki geta útskýrt blóðið.

Spurður af hverju hann gefur nýjan framburð nú segist hann hafa verið mjög drukkinn þessa nótt og ekkert munað. Þá segir hann engan hafa aðstoðað sig og að lögreglan hafi haldið fyrir honum vöku með því að koma inn í fangaklefa hans á tveggja tíma fresti og öskra: „Hvar er hún?“

Thomas sagðist hafa róast eftir að hann losnaði úr einangrun. Þá hafi hann einnig fengið sálfræðiaðstoð og hjálp við að muna hvað gerðist.

Skýrslutökum er ekki lokið.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing