Ferðaþjónustufyrirtækið Thomas Cook hefur tilkynnt að það ætli að hætta að selja ferðir í dýragarða sem halda háhyrninga en samkvæmt forsvarsmönnum fyrirtækisins er rúmlega 90 prósent viðskiptavina þess umhugað velferð dýra. Ferðaþjónusturisinn mun nánar tiltekið hætta að selja miða í tvo skemmtigarða, Sea World í Flórída og Loro Parque á Tenerife að því er kemur fram á vef BBC.
Peter Fankhauser framkvæmdastjóri fyrirtækisins sagði þessa ákvörðun hafa verið erfiða. Í bloggfærslu um málið sagði hann báða skemmtigarðana hafa bætt aðstöðu dýranna en þrátt fyrir það ætli fyrirtækið ekki að selja miða í dýragarða með háhyrningum frá og með næsta sumri.
Fankhauser segir fyrirtækið hafa unnið með mörgum sérfræðingum í dýravelferð síðustu mánuði og tekið tillit til vísindalegra gagna sem þau hafi fært fram. Einnig hafi verið tekið tillit til viðbragða viðskiptavina en rúmlega 90 prósent þeirra tjáðu fyrirtækinu að það skipti máli að ferðaþjónustufyrirtæki taki velferð dýra alvarlega.
„Þegar skoðanir viðskiptavina eru svona skýrar getum við ekki hunsað þær heldur verðum við að taka þær alvarlega,“ segir Fanhauser.
Forsvarsmenn SeaWorld sögðu í samtali við BBC að garðurinn ræktaði háhyrninga ekki lengur en dýrin sem séu nú í görðum þeirra verði þar í mörg ár.
SeaWorld taki á móti milljónum gesta og muni halda áfram að bjóða almenning velkominn í garða sína.