„Þetta var örugglega ein af erfiðari vikum í mínu lífi,“ segir handritshöfundurinn, leikstjórinn og upptökukonan Þóranna Sigurðardóttir, um vinnu sína við tónlistarmyndband hljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers við lagið Go Robot.
Anthony Kiedis, aðalsöngvari hljómsveitarinnar, bað hana um að leikstýra tónlistarmyndbandinu og hafði hún aðeins viku til stefnu. Kiedis vildi endurskapa senur úr Saturday Night Fever og bað Þórönnu um að koma því í kring. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.
Þóranna segist í raun hafa verið einskonar leigumorðingi í verkefninu því í upphafi stóð til að hún myndi taka upp myndbandið, ekki leikstýra því. „Við ætluðum að gera myndband við Dark Neccessities saman á Íslandi en Kiedis var veikur og of flókið að fljúga heim í tvo daga,“ segir hún.
Svo skrifaði ég líka hugmynd fyrir Go Robot, sem þeim fannst æðisleg en of sorgleg, en fyrir Kiedis var lagið um von og bjartsýni. Þannig að hann kom með hugmyndina að Saturday Night Fever og bað mig um að framkvæma hana.
Við tók krefjandi vika í New York í Bandaríkjunum þar sem myndbandið var tekið upp. „Framleiðandinn hafði reddað mér Airbnb-íbúð hjá mjög sérstakri konu. Hún átti lítinn Pomaranian-hund sem bjó í ísskápnum og kom og réðst á mig þegar mamma hans lokaði sig af inni í svefnherbergi í ögrandi nærfatnaði með myndavél,“ segir Þóranna.
Tveimur dögum fyrir tökurnar var Þóranna ekki með neina dansara, ekki með tökuleyfi eða diskótek. „Þá þurfti ég að hugleiða í klukkutíma á dag til að fá ekki stresskast. En allt gekk þetta á endanum,“ segir hún.
Foreldrum Þórunnar finnst hún lélegur leikstjóri
Þóranna flutti til Los Angeles fyrir fimmtán árum. „Fyrst var ég aðallega mamma en líka aðeins að kynna Ísland sem tökustað. Svo framleiddi ég kvikmynd fyrir manninn minn sem heitir All Gods Children Can Dance og er gerð eftir smásögu Haruki Murakami,“ segir hún.
Eftir það kom dóttir þeirra hjóna í heiminn og tók Þóranna sér frí í kjölfarið. Það stóð þó ekki lengi því hún fór að vinna í því að fá Dalai Lama til Íslands og gekk það upp. Leikstjórinn Darren Aronofsky hafði samband við Þórönnu og bað hana um að aðstoða sig við gerð kvikmyndarinnar Noah en hann vildi taka hana upp á Íslandi.
Hann hvatti hana til að reyna fyrir sér sem leikstjóri og gerði Þóranna stuttmyndina Zelos sem hún segir að hafi hrint öllu af stað. „Umboðsaðilarnir fóru að hringja og ég valdi að fara til CAA. Þeir hafa síðan verið að hjálpa mér að velja fólk til að gera Zelos í fullri lengd,“ segir hún.
Þóranna ætlaði í raun alltaf að verða leikstjóri og gerði sína fyrstu mynd sem unglingur. Þar fór bróðir hennar með aðalhlutverk og lék mann sem er háður fíkniefnum.
„Ég man þegar ég sýndi foreldrum mínum myndina, þá voru þau fljót að skella High8-spólunni aftur í myndavélina og taka yfir listaverkið. Báðum foreldrum mínum finnst ég frekar lélegur leikstjóri og þau voru heldur ekkert ánægð með Go Robot-myndbandið,“ segir hún og bætir við að þau hafi alltaf hvatt hana til að láta drauma sína rætast.
Þessa dagana er Þóranna að klippa Back on Track, heimildaþáttaröð um Randy Lainer. Þá er hún einnig að skrifa handrit að Zelos í fullri lengd og vonast til að fá minni verkefni í kjölfar Go Robot.