Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gagnrýnir fréttaflutning Morgunblaðsins, vegna fréttar á forsíðu blaðsins í dag, þar sem fjallað er um hælisleitanda sem var að safna rafgeymasýru í brúsa. Þórður segir að hælisleitandinn hafi ekki gert neitt ólöglegt en fréttin gefi það í skyn.
Sjá einnig: Hælisleitanda sem safnaði sýru á Ásbrú var vísað úr landi
Í fréttinni segir að öryggisvörður á Ásbrú hafi fundið sýru úr rafgeymum bifreiða sem maðurinn hafi verið að safna í brúsa. Hælisleitandanum hafi verið vísað úr landi um leið og endanleg niðurstaða hafi legið fyrir í hælisumsókn hans.
Þórður bendir á að það að safna rafmagnssýru á brúsa sé ekki ólöglegt, þó svo að það sé skrýtið. Þá telur hann svo að Morgunblaðið gefi í skyn með framsetningu sinni hver ætlun mannsins hafi verið. Að lokum finnt Þórði undarlegt að það þurfi að taka fram að honum hafi verið vísað úr landi eftir að umsókn hans hafi verið hafnað, það sé gert við alla.
Forsíðufrétt Mbl í dag. Hælisleitendi safnar rafmagnssýru á brúsa (skrýtið en ekki ólöglegt). Ekki er vitað af hverju (en samt gefið í skyn með framsetningu). Tiltekið að honum hafi verið vísað úr landi eftir að umsókn var hafnað (sem er gert við alla). https://t.co/gv81SNlHNe
— Þórður S. Júlíusson (@thordursnaer) June 5, 2019